138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Alþjóðahvalveiðiráðið.

[10:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, beindi til mín fjórum spurningum. Svarið við fyrstu spurningunni er nei, svarið við öllum hinum er já. Hins vegar bendi ég hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar á að beina þessari spurningu til rétts ráðherra. Þetta mál er á forræði hans ágæta flokksfélaga, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Sá starfsmaður Stjórnarráðsins sem hv. þingmaður vísaði til hefur verið lánaður frá utanríkisráðuneytinu til sjávarútvegsráðuneytisins til að fara með þessi mál og stefnan á þessu sviði hefur algerlega verið mótuð af þeim ágæta ráðherra.

Ég geri ráð fyrir því að ef hv. þingmaður vill ræða þetta í utanríkismálanefnd muni utanríkisráðherra glaður skoppa á fund nefndarinnar sem jafnan en hann mundi þá kannski sér til hægari verka taka með hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.