138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Alþjóðahvalveiðiráðið.

[10:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er að gera sjálfum sér eða hæstv. landbúnaðar- eða sjávarútvegsráðherra nokkurn greiða með því að óska eftir því að utanríkisráðherra svari fyrir þann ágæta ráðherra í ýmsum veigamiklum málum. Hins vegar er ég reiðubúinn ef þess er óskað að taka að mér að móta afstöðu í ýmsum veigamiklum málum fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð hvenær sem formaður utanríkismálanefndar óskar eftir því. Ég gæti sjálfur lagt fram tillögur að ýmsum málum sem hafa verið nokkuð ofarlega á baugi síðustu dagana og jafnvel sérstaklega í þessari viku (ÁÞS: Viltu ekki bara tala við þingflokkinn?) en af tillitssemi við friðinn í þessum sölum ætla ég ekki að gera það nema tilneyddur.

Hins vegar er blæbrigðamunur á afstöðu utanríkisráðherrans og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans í þessu máli, blæbrigðamunur, kannski ekki meira en það. Ég er þeirrar skoðunar að í þessum efnum eigum við að nálgast þetta málefnalega. Ég er þeirrar skoðunar almennt (Forseti hringir.) að nýta eigi auðlindir með sjálfbærum hætti en líka, svo ég tali eins og alvörudiplómat, að láta meiri hagsmuni vega meira en hina minni.