138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

fjölgun dómsmála.

[10:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Hæstv. forseti. Þau eru alvarleg málin sem hér eru rædd. Ég ætla reyndar að ræða annað mál sem er grafalvarlegt og hefur kannski hlotið minni athygli en efni standa til og það varðar dómstólana í landinu. Það er nefnilega svo að fjölgun dómsmála í dómskerfinu hefur, eins og hæstv. dómsmálaráðherra veit, verið gríðarleg á síðustu missirum, bæði fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti. Upplýsingar sem komu fram um daginn leiddu í ljós að þeir dómarar við Hæstarétt sem dæma flest mál við þann dómstól dæma um 300 mál á ári sem gerir u.þ.b. eitt mál á dómara á dag. Nú stefnir í að það verði alger sprenging í dómskerfinu. Fréttir í síðustu viku leiddu í ljós að dómsmálum mun ekki fjölga um þúsundir á næstu árum heldur um tugi þúsunda vegna ágreiningsmála sem varða kröfur á hendur bönkum og skilanefndum. Ég tel alveg ljóst að dómskerfið muni ekki ráða við þennan aukna málafjölda. Það segir sig sjálft að ef ekkert verður að gert mun réttaröryggi borgaranna minnka, málshraði minnkar, fyrir utan það að hætta á mistökum eykst verulega og mistök í réttarkerfinu eru þess eðlis að þau verða ekki aftur tekin. Ég vil inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir því hvernig hún hyggst bregðast við þessari stöðu og hvenær. Hugmyndir hafa verið uppi um fjölgun dómara, millidómstig, hugsanleg sérúrræði vegna þeirra krafna sem uppi eru í bönkunum á hendur þeim og skilanefndum. En nú er kominn tími til að hæstv. ríkisstjórn gefi skýr svör (Forseti hringir.) um það hvernig hún hyggst bregðast við stöðunni í dómskerfinu sem fram undan er í dómskerfinu.