138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[10:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp með örstutta athugasemd varðandi sameiningar ríkisstofnana og þeirra skrifstofa sem undir ríkið heyra. Þetta mál var inni í allsherjarnefnd. Þar kemur fram að verið er að sameina hinar ýmsu stofnanir á vegum ríkisins og að notaðar eru til þess allt að sex aðferðir. Ég kalla eftir samhæfingu frá stjórnvöldum þegar svona grundvallarsameiningar liggja fyrir. Þær eru af hinu góða. Ég styð fækkun ráðuneyta sem gerð er á skynsamlegan hátt en ég styð ekki það frumvarp sem liggur núna fyrir hjá ríkisstjórninni því að þar er verið að fórna t.d. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ég kalla eftir samhæfingu þegar þetta er gert og í þeim niðurskurðartillögum sem nú liggja fyrir kalla ég fyrst og fremst eftir sparnaði. Það verður að leggja ríka sparnaðarkröfu á stofnanir þegar verið er að sameina þær. Það er ekki gert í þessu tilfelli og vil ég koma því að. Það verður að gæta að hagkvæmnissjónarmiðum. Þessu er hér með komið á framfæri, herra forseti.