138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikil ást og hlýja á millum hæstv. samgönguráðherra og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Svo á það að vera. Hæstv. samgönguráðherra hefur staðið sig ákaflega vel og verið útsjónarsamur við að spila úr þeim fjármunum sem hann hefur, en hann hefur líka notið þess að skilningsríkir og glöggir þingmenn hafa verið í héraði sem hafa getað leiðbeint honum.

Mig langar líka að koma með svolitlar leiðbeiningar til hæstv. samgönguráðherra og þess þingmanns sem hér talaði. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði hér. Þeir voru reyndar sammála, félagarnir, um nauðsyn úrbóta á vegakerfinu á sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrst menn eru að tala um Vestfirði vil ég líka koma að því sem ég nefni jafnan þegar menn ræða um samgöngumál, það þarf líka að skoða Veiðileysuhálsinn. Hinum megin kjálkans þarf að sjá til þess að íbúar í smæsta sveitarfélagi landsins, í Árneshreppi, hafi a.m.k. þokkalega slarkfæran veg um að fara til annarra hluta landsins. Víðs vegar um kjördæmið setja menn nú mikla peninga í vegaframkvæmdir, m.a. á norðausturpartinum. Ég nefni t.d. að menn setja á næstu þremur árum, ef ég man eftir rosknu minni, fast að 1.300 millj. kr. í Drangsnesveg. Það er fínn vegur og sjálfsagt að bæta hann, en hann er ekki eins nauðsynlegur og Veiðileysuhálsinn. Spurningin er þessi: Er ekki hægt að ráðast í hvort tveggja, aðeins að teygja úr framkvæmdunum á Drangsnesveginum og ráðast í þær nauðsynlegu úrbætur sem hægt er að gera á Veiðileysuhálsi og kosta innan við 200 millj. kr.? Ég ætla að nota tækifærið og skora á hæstv. samgönguráðherra úr ræðustóli þingsins að finna leiðir til þess.

Síðan langar mig til að varpa því fram til hv. þingmanns, sem er einn af forustumönnum Vestfirðinga, hvort hann sé mér ekki sammála um að það eigi að reyna að skoða hvort ekki sé einhvers staðar hægt að færa til þannig að hægt sé að finna þær 200 millj. kr. (Forseti hringir.) sem þarf til að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar úrbætur á Veiðileysuhálsinum?