138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að skoða þetta mál til hlítar. Við aðrar aðstæður þar sem væri gnótt fjár í samfélaginu væri auðvitað eðlilegast og best og hugsanlega þegar upp er staðið ódýrast að fara hina hefðbundnu leið með opinberri fjármögnun eins og við höfum gert. Nú er bara öldin önnur. Okkur er fjár vant. Kreppan gerir það að verkum að Íslendingum er féskipt og þá er spurningin: Getum við á einhvern sniðugan hugvitssaman hátt komist á sama áfangastað með öðrum leiðum? Ég segi fyrir mig að ég vil skoða möguleikana á þessari fjármögnun mjög rækilega og reyndar líka í þeirri tegund atvinnugreinar sem hv. þingmaður nefndi varðandi orkuframleiðslu. Ég tel alla vega að okkur beri mórölsk skylda til að skoða þetta út í hörgul. Hæstv. samgönguráðherra hefur lagt fram grunninn að þeirri umræðu. Hann hefur komið fram með hugmyndir. Hv. þingmaður segir: Ég vil skoða það. Ég tók undir það með honum, ég gef mér ekkert fyrir fram.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að það þurfi að gerast á grundvelli jafnræðis, milli landshluta, milli þeirra sem eiga heima utan hinna þéttbýlustu kjarna og þeirra sem þar búa. Ég er hins vegar sannfærður um að með nútímatækni sé hægt að búa til aðferð sem kemst nálægt því að tryggja þokkalegt jafnræði, ég tel það — ég get ekki fullyrt það á þessari stundu og ekki hef ég lausnina en til þess eru nú teknókratarnir. En eftir sem áður stendur þessi grundvallarspurning: Erum við reiðubúin til að greiða fyrir afnot af samgönguæðum við sérstakar aðstæður? Ég er þeirrar skoðunar að það sé verjandi við þessar aðstæður. Ég held að ávinningurinn af því verði svo mikill. Við þurfum á honum að halda einmitt núna næstu tvö, þrjú árin. Ég held að ef okkur tækist að vera sammála um að ráðast í framkvæmdir af þessum toga mundi það vera gríðarleg lyftistöng fyrir landið allt. Á það ber líka að horfa. Ég er ánægður með að hv. þingmaður nálgast þetta mál með opnum huga.