138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur nú varla komið hæstv. utanríkisráðherra á óvart hversu lipur og frjálslyndur sá sem hér stendur er í hugsun, eins oft og við höfum rætt málin í þessum ræðustól. (Gripið fram í.) Hins vegar tek ég undir það sem hæstv. ráðherra nefndi, við þurfum að vanda vinnuna sem við ætlum að fara í. Ég held og það getur verið að hæstv. samgönguráðherra komi inn á það seinna í dag í ræðu að sú tækni sem verið er að tala um sé töluvert í framtíðinni. Þá er spurning: Hvað gerum við þangað til?

Ég á kannski að vita þetta, frú forseti, en ég var að velta fyrir mér: Af hverju í ósköpunum gera lífeyrissjóðirnir, ef þeir eiga að koma að þessu, kröfu um að þetta sé einkaframkvæmd? Vilja þeir ekki lána íslenska ríkinu fjármagn þannig að íslenska ríkið geti staðið að þessu? Eða er það eitthvert annað apparat sem krefst þess að þetta fari þessa leið?

Ef farið er í gjaldtöku í samgöngum verður að horfa á svo margt. Eitt er t.d. öllum ljóst, það er að á höfuðborgarsvæðinu er grunnur og meginstarfsemi læknisþjónustu og annarrar þjónustu sem flestir landsmenn þurfa að sækja sér. Er það t.d. eðlilegt að þeir sem þurfa mjög oft t.d. að hitta lækni, lögmenn sem víða um land er ekki að finna, ýmsa svona þjónustu sem menn verða að sækja til höfuðborgarinnar, borgi sérstakt veggjald til að keyra þangað og sækja sér þessa þjónustu? Það eru svona hlutir sem mér finnst þurfa að taka inn í umræðuna á einhverjum tímapunkti.

Ég ítreka, frú forseti, að með því að segja þetta er ég samt sem áður ekki að útiloka að þessi leið verði farin.