138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel mjög brýnt áður en forseti slítur þingi og frestar því fram á haust að þessi mál varðandi Evrópusambandið verði rædd og hvernig Bretar og Hollendingar hafa aftur og aftur kúgað íslensk stjórnvöld til að ganga að samningum um Icesave sem þeir væntanlega vita að eru ekki réttmætir.

Ég vil gjarnan að utanríkismálanefnd ræði líka hvernig Kína segist hafa hjálpað Íslendingum í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að fá Breta og Hollendinga ofan af þessari kúgun. Sendiherra þeirra segir að þeir séu fyrst og fremst að leggja vinaþjóð hjálparhönd á erfiðum tímum. Ég vildi gjarnan að utanríkismálanefnd ræddi líka hvað utanríkisráðherra er að gera á tveim vígstöðvum, annars vegar gagnvart Evrópusambandinu og hins vegar gagnvart Kína. Ég vildi gjarnan að menn áttuðu sig á því að Kína er afskaplega stórt og voldugt herveldi sem virðir ekki mannréttindi.