138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fullvissa hv. þm. Árna Þór Sigurðsson um að við þingmenn stjórnarandstöðunnar erum pollrólegir og erum ekkert að farast úr æsingi. En ef rétt er sem lesa má úr fréttinni frá Reuters-fréttastofunni sem hv. þm. Óli Björn Kárason reifaði, að Bretar og Hollendingar hafi fengið einhvern ávæning um að íslensk stjórnvöld séu að fallast á kröfur Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, er ég hræddur um að ýmsir þingmenn verði býsna órólegir. Ég hygg að slíkur fréttaflutningur ætti að ýta töluvert við hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni vegna þess að það væru skelfileg tíðindi. Ég tala nú ekki um ef Icesave-málið er af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hugsanlega notað sem skiptimynt (Forseti hringir.) til að komast inn í Evrópusambandið.

Ég fagna því að hv. þingmaður hafi lýst því yfir að hv. utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) verði kölluð saman vegna málsins og þinginu veittar útskýringar sem því ber að fá.