138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[14:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir andsvar hans og að hafa sýnt mér fram á það að Eyjamenn eru ekki dauðir úr öllum æðum enn. (Gripið fram í: Ónei.) Nei, það er langur vegur frá, og blása þegar lognið er farið að ergja þá. Það er gott. Við unum því venjulega, svona útkjálkamenn, að njóta golunnar og láta hressandi blæinn leika um vitin og njótum þess og kunnum að njóta þess.

Ég vil segja varðandi þær hugmyndir sem hv. þingmaður hefur uppi, um jarðgöng til Eyja og annað því um líkt burt séð frá því hversu skynsamleg sú framkvæmd er, að málflutningurinn ber vitni um það að menn vilji hugsa á öðrum nótum en við höfum gert og við eigum að mínu mati að skoða allar slíkar tillögur sem innlegg í það að bæta skilyrðin fyrir atvinnurekstur í landinu til að skapa meiri arðsemi. Ég skal alveg viðurkenna það í þessum ræðustól að ég hef aldrei haft trú á því að sú framkvæmd geti orðið að veruleika. Það er tilfinning mín sem byggir á þeim upplýsingum sem ég hef lesið og er ég þó ekki mjög fróður um þetta, en það er tilfinning sem ég hef fengið við yfirlestur og fréttir af þessum verkum. En ég skal vera fyrstur manna til að verja það að slíkar hugmyndir séu settar fram, því að þær geta ekki annað en skilað okkur fram á veginn, þ.e. að menn fari þá að hugsa á öðrum nótum en þeir hafa gert. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hv. þingmanni í þeim efnum að leita beri leiða til að koma vöru á markað og aðföngum til fyrirtækja á sem skemmstum tíma og eftir sem stystum vegalengdum.