138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[14:31]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikill fjöldi manna vann að framgangi þessa máls, hugmyndarinnar um jarðgöng milli lands og Eyja. Þeir eru allir sammála um að þessi kostur var ekki bara fýsilegur, hann var fýsilegastur. Ef maður tekur 30 ára bil, tveggja ferja tímabil, er þetta ódýrasti kosturinn, miklu ódýrari en að gera út og berjast við náttúruöflin á hafinu. Þetta mun tíminn leiða í ljós og nú er verið að stíga merkilegt skref sem er hálfbylting sem mun gjörbreyta miklu, stytta leiðirnar og auka möguleikana. Það skiptir miklu máli að það sé gert vel.

Þá er eitt atriði sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á, rekstrarþáttur ferjanna. Nú er til að mynda verið að véla um það hjá Vegagerðinni að hafa enga þjónustu um borð í Vestmannaeyjaferjunni milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja sem má reikna með að flytji 150.000–200.000 farþega á ári, enga þernu eins og sagt er. Bæði karlar og konur gegna því starfi. Það á að vera einn kokkur en engin þerna. Hvað með þá sem verða sjóveikir? Alltaf verða einhverjir sjóveikir, og eiga þeir að hreinsa sjálfir upp?

Það er svo mikið rugl í þessari uppsetningu og það er slík skrifborðsvinna úr ríki ríkisins, Vegagerðinni, að það verður að sporna við þessu, alveg sama hvort það eru ferjur til Grímseyjar, Flateyjar eða annað, og tryggja eðlilega lágmarksþjónustu. Annað er ekki boðlegt.