138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:19]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér má vitaskuld margt segja en ég er vissulega starfsmaður á plani þegar kemur að mínu kjördæmi og flyt þjóð minni þær kröfur sem þar eru settar fram, að mínu viti af mikilli sanngirni. Veit ég að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem hér stendur í gættinni getur vitnað um það. (Gripið fram í.)

Við sem þingmenn reynum vitaskuld að bæta kjör fólks í landinu. Ég nefndi aukinn byggðajöfnuð. Ég tel að með stærri og sterkari byggðasvæðum, með auknum byggðajöfnuði, betri tengingum atvinnukosta og atvinnulífs á milli byggðasvæða, auknum flutningsjöfnuði og betri vegum til að sinna ferðaþjónustunni um allt land og dreifa ferðaþjónustunni betur um allt land, hugsi ég mjög stórt. Ég lít á samgöngumál í einu stóru samhengi. Ég tel reyndar að eitt af stærstu hagsmunamálum fólks úti á landi sé t.d. lagning Sundabrautar til að stytta veginn milli borgarinnar og landsbyggðarinnar. Auðvitað eigum við að horfa á þetta allt í einu stóru samhengi. Ég ítreka að mér hefur fundist, jafnt í skrifum mínum sem fréttamaður og nú á síðustu mánuðum sem þingmaður, að skiptingin sé einfaldlega ekki jöfn og menn fái misjafnlega mikið fyrir skattana sína þegar kemur að vegamálum. Og það er ójöfnuður.