138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:21]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú blasir við, og má nánast segja með nokkurri vissu, að við Íslendingar fáum samþykki Evrópusambandsins fyrir að hefja aðildarviðræður við sambandið. Það eru ánægjuleg tíðindi og í þessu sambandi, eins og ég minntist á í fyrra andsvari mínu, gætum við hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hugsanlega ástundað kjördæmapot saman, um að við Íslendingar fengjum aðgang að mjög merkilegu verkefni á vegum Evrópusambandsins. Það miðar að því að hanna og smíða ferjur sem henta til úthafssiglinga. Það eru einkum Írar og Skotar sem hafa haft forgöngu um þetta þróunarverkefni. Það hafa verið nokkrar takmarkanir á því að við komumst þar að, þar sem við höfum staðið fyrir utan sambandið eins og allir vita. Ég hef fylgst með þessu og hef komið þessum upplýsingum á framfæri, bæði við samgönguráðuneytið og Siglingastofnun og reyndar líka Vegagerðina.

Ég tel að þetta væri mikið hagsmunamál, fljótt á litið aðallega fyrir Vestmannaeyinga, sýnist mér, ég hef aðallega beint sjónum mínum til þeirra í þessu sambandi. En ekki síður fyrir aðrar eyjar undan ströndum landsins, eins og Hrísey en þar er reyndar komin ný ferja. Þetta er mjög tæknilegt mál en ég hef kynnt mér eins og ég hef haft burði til, þær ferjur sem Írar og Skotar eru að hanna fyrir tilstuðlan mjög ríkulegs styrks frá Evrópusambandinu. Ég tel að við ættum að einhenda okkur í að komast inn í þetta verkefni, og fá til þess stuðning úr væntanlegum aðlögunarsjóðum Evrópusambandsins, svokallaðan IPA stuðning, til að kanna möguleikana á því að þetta verði næsta ferja á milli lands og Eyja.