138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:28]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft og skylt að svara þessari góðu spurningu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Ég hef nefnilega kynnt mér þetta mál með Teigsskóg. Ég tel að þar séu á ferðinni dæmigerðir sérhagsmunir á kostnað almannahagsmuna, með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki sem á sumarbústaði þarna en heldur heilum landsfjórðungi í heljargreipum ef svo má segja. Nú ber ég hag þessa fólks sem á sumarbústaðina ágætlega fyrir brjósti en tel að almannahagsmunir taki þeim framar. Ég tel ekki viðunandi að svo fámennur hópur haldi heilu byggðarlagi í heljargreipum, eins og ég gat um.

Ég vil jafnframt geta þess að þetta fyrirhugaða vegarstæði er að mínu viti er afskaplega fagurt og veglagningunni hefur verið hrundið úr áætlun sumpart í nafni umhverfisverndar. Ég þekki það víða um land og hef farið víða um land, sennilega um allt landið, að einhverjir fegurstu vegir á Íslandi liggja einmitt um skógræktarsvæði. Mörg skógræktarsvæði á Íslandi eru þannig að þar komast fáir að vegna þess að þeir vita einfaldlega ekki af þeim. Ég nefni t.d. Vaðlaheiðina. Þar var vegurinn fluttur úr nánast miðri hlíðinni niður undir sjávarmál í gegnum stórt skógræktarsvæði Skógræktarfélags Eyjafjarðar. Fyrir vikið er þar að finna eitthvert fegursta vegarstæði á landinu. Ég tel að svo yrði við Teigsskóg ef — og þegar — af þessu verður. Ég tek undir orð hv. þingmanns, ég tel rétt að fara þessa leið, að setja sérlög vegna þess að vegurinn verður jafnt í senn afskaplega fagur (Forseti hringir.) og mun lyfta byggðum Vestfjarða (Forseti hringir.) upp í ágætar hæðir.