138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög hreinskilin svör og fagna því sem hann sagði hér í máli sínu, að það sé að sjálfsögðu hægt að gera góða vegi í gegnum fallegt land án þess að skemma það. Hv. þingmaður hefur greinilega kynnt sér þessa sögu og ég fagna því að hann sé tilbúinn að styðja þetta mál vegna þess að það er einstakt að því leyti til að það eru búnir að falla um það tveir dómar, annars vegar í héraðsdómi og hins vegar í Hæstarétti, sem segja í raun hvor sína skoðunina, ef ég má orða það þannig. Málið í Hæstarétti féll ekki á þeim atriðum sem landeigendur börðust fyrir að yrðu viðurkennd heldur á tæknilegu úrlausnaratriði sem sagði að þegar umhverfisráðherra úrskurðaði á sínum tíma mátti ekki vísa til umferðaröryggis í úrskurðinum. Málið féll því á tæknilegu atriði, sem er alveg hreint með ólíkindum.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þingmaður segir að það hafa verið lagðir vegir víða um land einmitt í gegnum falleg landsvæði og það eru mjög falleg vegstæði.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni og ég tek undir það, að gerðar séu miklu minni kröfur til þess fólks sem býr á suðvesturhorninu varðandi það sem er að gerast á Stór-Reykjavíkursvæðinu ef tekið er tillit til tekjuskiptingar, skattanna og þeirrar jöfnunar sem þar á að vera. Þar ýta menn jafnvel niður hrauni og gera hvað sem er án þess að það heyrist kvak um það, en um leið og það gerist úti á landsbyggðinni þar sem er færra fólk verður allt vitlaust. Getur hv. þingmaður tekið undir þessa skoðun mína um að það séu gerðar meiri kröfur þar sem fámenni er, vegna þess að (Forseti hringir.) sumpart vilji þetta fólk ekki fara að berjast við fjöldann hér á suðvesturhorninu?