138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessu stutta andsvari sem ég hef hér mun ég reyna að komast yfir sumt af þeim fjölmörgu spurningum sem hv. þingmaður bar hérna fram en aðallega leiðrétta misskilning eða kannski bara rangfærslur, ég veit ekki hvort heldur það er.

Fyrst varðandi umferðaröryggisgjaldið þá ætti hv. þingmanni að vera kunnugt um að það var ríkisstjórn sem hann sat í og ég sat í eftir hrunið sem tók út fjármagn til umferðaröryggismála í fyrstu fjárlagagerð eftir hrun, þ.e. fyrir 2009. Það var ekki einu sinni talað við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um það, það var bara gert í fjármálaráðuneytinu, bara rétt sisvona, og við lásum um það á sama tíma og aðrir. Það var sem sagt tekið þar út.

Er engu varið til umferðaröryggismála, eins og mátti skilja á hv. þingmanni? Nei, það er ekki svo, það er miklu varið til öryggismála en auðvitað má alltaf verja meiru. Hér eru þrisvar sinnum 340 milljónir, það er hvorki meira né minna en 1.400 milljónum varið til umferðaröryggismála í þessari áætlun á þessu fjögurra ára tímabili. Auðvitað er verið að vinna fjölmörg önnur umferðaröryggismál með útboðum á betri vegum. Við getum tekið sem dæmi útboð á Suðurlandsvegi sem gert var í vetur, 60 km kafli. Þar er í fyrsta skipti í útboðsgögnum á stofnbraut eins og þar sett inn vegrið í útboðið, sem er nýtt. Svona má lengi telja. Ég vil minna líka á frumvarp til umferðarlaga sem er búið að flytja hér. Þar er komið inn á marga þætti. Margt mætti taka hér til og minni ég síðan á ýmislegt annað. En fyrst og fremst varðandi umferðaröryggisgjaldið vildi ég þetta sagt hafa.

Ég ætla að koma að því í seinna andsvari mínu sem hv. þingmaður var að ræða, um skipt fjárframlög milli kjördæma eins og oft er gert, en þar eru líka hlutir sem snúa beint að umferðaröryggismálum fyrir utan það sem ég nefndi áðan.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að í þessari áætlun er gert ráð fyrir 340 milljónum á ári í fjögur ár og það eru tæplega 1.400 milljónir.