138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það eru einhverjar rangfærslur er rangfærslan væntanlega í þessu plaggi. Ég las bara hér beint, með leyfi forseta, get lesið það aftur, á bls. 87:

„Eins og að framan segir hefur umferðaröryggisgjaldi, um 90 millj. kr. á ári, ekki verið varið til umferðaröryggismála og því er óverulegum fjármunum af vegafé varið til þessa málaflokks.”

Virðulegi forseti. Hvaða plagg er þetta? Þetta er tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. Virðulegi forseti. Var það ekki hæstv. samgönguráðherra sem mælti fyrir þessu? Ef hæstv. samgönguráðherra er að skamma einhvern er hann væntanlega að skamma þann sem hefur flutt þetta mál. (Samgrh.: Lestu blaðsíðu 18.) Ekki er hann að skamma þann sem les upp úr því. (Samgrh.: Lestu blaðsíðu 18.) Ég get alveg lesið fleiri blaðsíður í þessu, virðulegi forseti, en ef þetta er rangt held ég að hæstv. ráðherra eigi að koma og leiðrétta það. Ef þetta eru rangfærslur hérna held ég að hæstv. ráðherra verði væntanlega að vanda sig betur næst þegar hann flytur þetta mál.

Hins vegar staðfesti hæstv. ráðherra að þetta væri rétt og sagði að þetta hefði gerst í þeirri ríkisstjórn sem við báðir sátum í. Ég veit ekki hvort það breytir eitthvað niðurstöðu málsins. (Samgrh.: Þú gerðir ekki athugasemdir við það þá.) Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er mjög viðkvæmur fyrir þessu máli. Ég var heilbrigðisráðherra á þeim tíma og ég veit ekki til þess að aðrir heilbrigðisráðherrar hafi lagt jafnmikla áherslu á umferðaröryggismál og sá sem hér stendur og fékk jafnvel gagnrýni fyrir það. En reglan er ekki sú að menn séu að skipta sér af málaflokkum annarra ráðherra en ef þetta var þeirri ríkisstjórn að kenna sem sat á þeim tíma þá er nú komin ný sem væntanlega gerir það að verkum að hæstv. samgönguráðherra getur breytt þessu og ég hvet hann til að gera það. Ef eitthvað er rangt sem stendur í þessu plaggi á hæstv. ráðherra ekki að skamma mig fyrir það.