138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um samgönguáætlun á tímabilinu 2009–2012. Nokkuð hefur verið beðið eftir því að taka umræðu í þinginu um samgönguáætlun en þetta er grundvallarstefnumótunarplagg um fyrirætlanir stjórnvalda á þessu sviði á þeim árum sem um ræðir.

Töluverðar breytingar hafa orðið í áætlanagerð á umliðnum árum og ég tel að það hafi verið skynsamlegt spor þegar ákveðið var að sameina vegáætlun, hafnaáætlun og flugáætlun í eina samgönguáætlun. Ég held að á margan hátt sé líka skynsamleg sú nálgun, sem hefur nokkuð verið rædd, að ganga lengra í sameiningu áætlana til að gera sér betur grein fyrir hvert stefnt er á landsvísu með einstaka þætti en það þýðir þá jafnframt að slíkar áætlanir verða meira stefnumarkandi plagg. Ég sé ekki fyrir mér að þá verði eins mikið verið að ákveða niður á krónur og aura hvert einstakt verkefni í slíkum áætlunum. Ég tel að það sé ástæða til að gera breytingar á þessari áætlanagerð þannig að samgönguáætlunin sé fyrst og fremst stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eða viðkomandi ráðherra á þessu sviði, en þegar kemur að því að ákveða einstök verkefni er það skoðun mín að nauðsynlegt sé að gera slíkt í samstarfi, í þessu tilviki í þinginu við fjárlaganefnd, en hv. samgöngunefnd véli ekki eingöngu um þær tölur sem hér er að tefla. Þetta eru verulegar upphæðir og það er mjög mikilvægt að nefndarmenn í fjárlaganefnd hafi þær á takteinum þegar þeir eru að meta gjaldahlið ríkissjóð og fjárfestingar. Þetta vildi ég segja í upphafi vegna áætlanagerðarinnar almennt. Ég hef orðið vör við það í vinnu minni í fjárlaganefnd þar sem ég sit að við höfum ekki nógu mikla yfirsýn yfir einstaka þætti áætlanagerðar í samgöngumálum og ég held að þarna sé ástæða til að gera bragarbót á.

Mig langar til að tæpa á nokkrum atriðum í áætluninni, þetta er viðamikil áætlunargerð og líka mikilvægar upplýsingar sem hér koma fram fyrir þingmenn og fyrir okkur öll til að meta það sem fram undan er á þessu sviði. Það þarf náttúrlega ekki að ræða hvers konar breytingar hafa orðið á samgönguáætlunum eða fyrirhuguðum áætlunum eftir hrun bankanna 2008. Það stefndi í að gríðarlegir fjármunir yrðu settir í vegaframkvæmdir og ýmsar framkvæmdir fram að hruni og það hefur auðvitað verið dregið stórlega úr þeim fyrirætlunum. Núna eru menn að reyna að halda í það sem hægt er. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé lífsnauðsynlegt fyrir hagkerfi okkar að framkvæmdir komist af stað og ég er jafnframt þeirrar skoðunar að samgöngumannvirki séu ein af þeim framkvæmdum sem æskilegt sé að fara í við þær aðstæður sem uppi eru.

Mér finnst skipta máli — og vegna þess að ég sit ekki í samgöngunefnd hef ég verið að lesa þetta í dag og í gær — mér finnst mikilvægt að við reynum að fara í smærri verk líka til að auka við atvinnustigið víða um land. Við vitum auðvitað að atvinnuleysið er mikið á höfuðborgarsvæðinu og það er það raunar líka á vissum stöðum fyrir norðan og austan og í Reykjanesbæ og því er mjög gagnlegt ef hægt er að hvetja til framkvæmda á þessum svæðum á sviði samgöngumannvirkja til að efla atvinnustigið og auka sláttinn í hagkerfinu.

Ríkisstjórnin hefur verið að leita leiða ásamt aðilum vinnumarkaðarins til að gera gangskör að því að koma verkefnum af stað. Hæstv. samgönguráðherra er líka með fyrirætlanir um að koma einkaframkvæmdum í betra horf og ég get ekki annað en verið talsmaður einkaframkvæmdar, en ég vil jafnframt þó að gætt sé að því hvernig með þær er farið í efnahag og reikningum ríkissjóðs. Við sjálfstæðismenn stóðum að því að farið yrði af stað með tónlistarhúsið Hörpu og við höfum gagnrýnt það sjálf og það hefur verið gagnrýnt, við höfum verið gagnrýnd fyrir það einnig, að það hafi verið gert með heimildarákvæði í fjárlögum. Ég held að það sé háskalegt ef við göngum mjög langt í því að fara í framkvæmdir sem standa fyrir utan efnahag ríkisins. Nú sjáum við fram á að heill spítali muni væntanlega gera það og hluti af samgöngumannvirkjum einnig, og á vissan hátt skekkir það stöðu ríkissjóðs fljótt á litið þegar þessir hlutir eru færðir þarna fyrir utan. Þetta vil ég segja til áréttingar því að við þurfum að finna betri leiðir til að láta þetta birtast í fjármálum ríkissjóðs þannig að menn geri sér grein fyrir hvernig undir þessum framkvæmdum eigi að standa vegna þess að á ákveðnum tímabilum stendur ríkissjóður auðvitað á bak við slíka hluti. Ég get ekki orða bundist vegna þessarar framkvæmdar og ég er þakklát fyrir það að hæstv. samgönguráðherra er við umræðuna.

Mig langar til að gera aðeins að umtalsefni höfuðborgarsvæðið í samgönguáætluninni, ég einblíni fyrst og fremst á vegaþátt samgönguáætlunarinnar. Ég fagna því reyndar mjög að við séum að komast af stað með samgöngumiðstöðina í Vatnsmýrinni. Ég er fylgismaður þess að Reykjavíkurflugvöllur sé þar og mér finnst löngu tímabært að bætt sér úr þeirri aðstöðu sem er til staðar á Reykjavíkurflugvelli. Það er í náttúrlega hróplegu ósamræmi við aðrar aðstæður á landinu hvernig aðstaðan er þar. Þar er allt of þröngt og erfitt við að eiga, ég þekki það á eigin skinni og það gera flestir sem hafa búið annars staðar en í Reykjavík. Miðstöð innanlandsflugs verður að vera í Reykjavík, í mínum huga er það alveg grundvallaratriði, og ég er eindreginn fylgismaður þess að svo sé áfram. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að hægt sé að minnka umfangið eða hvernig sem menn vilja hugsa það en í grundvallaratriðum þarf áætlunarflug á Íslandi, innanlandsflugið, að hafa miðstöð í Reykjavík að mínu viti.

En ég þarf að fá upplýsingar frá hæstv. samgönguráðherra og ég er ánægð með að hann er hér. Er það rétt skilið hjá mér að það sé lítið um verklegar framkvæmdir í Reykjavík? Og þá vil ég setja það í samhengi við það sem ég sagði áðan, að við vitum að atvinnuástandið er mjög bagalegt, hér hafa verktakar unnvörpum þurft að leggja upp laupana, við erum með hálfkaraðan fasteignamarkað og gríðarlegan vanda í byggingariðnaði. Reykjavíkurborg hefur reynt að leggja sitt af mörkum með því að halda uppi störfum og reyna að fara í smærri framkvæmdir sem eru þá á vegum gatnamálastjóra Reykjavíkurborgar, en ég hygg að það væri gott ef ríkið gæti komið hér að. Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra að því: Er það rétt skilið hjá mér að það sé einungis gert ráð fyrir undirgöngum við Klébergsskóla árið 2010 og það sé 15 millj. kr. framkvæmd? En bara svo ráðherra haldi ekki að ég sé með útúrsnúning þá ég sé auðvitað að það á að fara í ýmis önnur verkefni eins og almenningssamgöngur og slíkt, sem ég held reyndar að sé mjög til bóta. Það er líka gert ráð fyrir hjóla- og göngustígum árin 2011 og 2012 og göngubrúm og undirgöngum fyrir 200 millj. á sama tímabili. Þessar tölur eru fyrir Reykjavík og Suðvesturkjördæmi saman en það stingur dálítið í stúf, ef þetta er rétt skilið hjá mér að hjá Reykjavíkurborg sé einungis gert ráð fyrir 15 millj. árið 2010 en ekkert annars staðar og það hafi samanlagt á tímabilinu verið gert ráð fyrir 89 millj. fyrir Reykjavík. Ég vildi fá áréttingu á því hvort þetta sé rétt skilið eða hvort ég sé að misskilja eitthvað og ég vil þá bara fá það leiðrétt. Og enn fremur: Sér hæstv. samgönguráðherra fram á einhver stærri verkefni á sviði samgangna í Reykjavík sem hugsanlega gætu komið til sögunnar á þessu tímabili?

Ég nefndi Landspítalann áðan. Við höfum haft Landspítalann til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Þar hefur komið fram að kostnaður við byggingu spítalans muni verða um 53 milljarðar kr. (Gripið fram í.) Mig minnir, og mig langar líka til að fá staðfestingu á því hjá hæstv. samgönguráðherra, að hann hafi á einhverjum tímapunkti gert ráð fyrir einhverjum samgönguframkvæmdum í tengslum við spítalann. Við þurfum auðvitað að tryggja að það séu öruggar samgöngur til hans og þarna finnst mér líka mikilvægt að benda á Reykjavíkurflugvöll af því að þar kemur sjúkraflugið inn og þar er náttúrlega stutt í spítalann. Mig minnir að hann hafi nefnt einhverja tölu, 20 milljarða sem þyrfti til að laga samgöngur eða aðgengi að Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það kom mér mjög á óvart í hv. fjárlaganefnd, þegar spurt var um þetta atriði, að það er mat verkefnastjórnarinnar sem sér um byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss að það þurfi engar samgönguframkvæmdir í tengslum við spítalann, bara engar. Mig langar til að vita hvort þetta er rétt. Það er miklu betra, ef við höldum að það þurfi eitthvað, að fá það fram strax þannig að við getum gert réttar áætlanir og áttað okkur á því hvernig með þetta eigi fara. Það eru ákveðnar þrengingar á þessu svæði eins og við þekkjum við Hringbrautina. Það var farið í breytingar á Hringbrautinni til að reyna að leysa úr umferðarvanda þar en því verki er ekki lokið. Mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra að því hvort hann telji að ekki þurfi að fara í neinar samgönguframkvæmdir í tengslum við spítalann.

Einnig langar mig til að nefna tvö verkefni í Reykjavík sem hafa verið nokkuð í umræðunni. Annars vegar er það svokallaður Hlíðarfótur. Hefur verið ákveðið að setja það verkefni á ís, hvernig stendur það? Skiptir það einhverju máli í þessu sambandi gagnvart spítalanum eða bara gagnvart umferðarþunga í Öskjuhlíðinni og þar um kring þar sem nú eru náttúrulega komnir gríðarlega fjölmennir vinnustaðir í kringum Háskólann í Reykjavík og tengda starfsemi? Mig langar að spyrja sérstaklega um Hlíðarfótinn.

Svo verð ég að spyrja um Sundabrautina. Ég get ekki leynt því að mér finnst nauðsynlegt að fara í jarðgangagerð á strjálbýlli stöðum þar sem veruleg hætta hefur verið og þar sem yfir þunga vegi er að fara. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að hægt verði að fara af stað með mikilvæga framkvæmd á Austurlandi, Norðfjarðargöng. Ég held að það muni skipta verulegu máli fyrir byggðina þar. Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því nema að vera þar að vetrarlagi hvers konar ástand skapast þar vegna vegarins frá Norðfirði yfir til Eskifjarðar. Ég er ánægð með að menn ætla að fara af stað með það þótt ég geri mér fulla grein fyrir því að það á ekki að fara að byggja Norðfjarðargöng í hvelli, en það er mjög gott að geta farið í undirbúningsvinnuna og af því skapast líka störf. Ég vil spyrjast fyrir um það í leiðinni og einnig vil ég spyrja aðeins áfram um Austurlandið vegna ferðamannastaðarins Seyðisfjarðar og ferjusamgangna þar. Þar er gríðarleg umferð ferðamanna og þar er einnig yfir mikinn fjallveg að fara, Fjarðarheiðina, og við vitum að Seyðfirðingar hafa haft áhuga á því að þar verði gerð bragarbót á. Ég þekki það sjálf, það var töluvert rætt þegar ég bjó á Austurlandi hvort hægt væri í framtíðinni að fara í svona stærri og tengdari framkvæmdir og tengja þessi svæði saman í heild sinni. Menn höfðu áform uppi um að nota þá kannski þau tæki og tól sem urðu eftir vegna framkvæmdanna fyrir austan í slíkt. Það kom síðan í ljós og það var mat Vegagerðarinnar að það væri ekki hægt og því var ekkert farið í það. En mig langar að spyrja hvort ráðuneytið eða Vegagerðin séu að velta þessum hlutum eitthvað fyrir sér til framtíðar vegna þess að við ætlum náttúrlega ekki að vera í efnahagsþrengingum endalaust og þá þurfum við að gæta að því hvernig við byggjum upp vegakerfið og styrkja þær byggðir sem þarna eru og byggðina á Seyðisfirði.

Ég sakna þess í þessari samgönguáætlun að Sundabrautin skuli ekki vera nefnd nema að ég held á einum stað. Reykvíkingar eru búnir að bíða eftir Sundabrautinni í óralangan tíma. Auðvitað hafa verið deilur í Reykjavík um það hvernig eigi að fara í hana og hversu stór framkvæmdin eigi að vera en engu að síður hefur þetta verið að mati Reykvíkinga meginverkefnið sem þyrfti að fara í til að stytta ferðatíma í borginni og tengja betur efri hverfi borgarinnar. Ég skil það svo að þær framkvæmdir sem nú eru á Vesturlandsvegi séu að hluta til hugsaðar til að undirbúa þá hlið Sundabrautarinnar þar sem tvöföldunin er á Vesturlandsveginum. Ég hef áhyggjur af því ef það verður svo að við sjáum ekkert framan í Sundabraut á næstu árum, það veldur mér verulegum áhyggjum, sérstaklega þegar litið er til þess að mér finnst afskaplega lítið vera að gerast í Reykjavík á þessu sviði núna. Í áætluninni er gert ráð fyrir því, það kemur fram á bls. 34 að það sé hluti af því sem kanna eigi í stöðugleikasáttmálanum hvort hægt sé að fara í vegaframkvæmdir með fjármögnun lífeyrissjóðanna og Sundabrautin er þar nefnd. Nú veit ég að samflokksmaður hæstv. samgönguráðherra, Dagur B. Eggertsson, ég hygg að hann sé orðinn í dag formaður borgarráðs, mig minnir að hann sé formaður samgönguráðs í umboði hæstv. samgönguráðherra þannig að það eru hæg heimatökin að ræða um stöðu Sundabrautarinnar. Mér hefur skilist að deilan snúist núna fyrst og fremst um það hversu umfangsmikil framkvæmdin eigi að vera og hversu dýrar eða hversu fínar leiðir, getum við sagt, við ættum að fara. Auðvitað er það alveg þarft, í því ástandi sem nú er eigum við að reyna ódýrari leiðir og ég hugsa að á margan hátt höfum við kannski leyft okkur of dýrar framkvæmdir. Það er sjálfsagt fyrir okkur að endurskoða það og við hefðum kannski átt að gera það miklu fyrr. En mig langar að spyrjast fyrir um þetta.

Ég sé líka að á bls. 57 eru nefnd verkefni í sérstakri fjármögnun. Vaðlaheiðin kemur þar inn og hún er eitt af þeim verkum sem hugsuð eru að fari í einkaframkvæmd. Mig langar að spyrja hvort það hafi komið til greina að setja inn passus um Sundabrautina. Vesturlandsvegurinn er hér. Það er líka verkefni sem menn hafa verið að bíða eftir á því svæði og Suðurlandsvegur. Ég ætla ekki að fara að nefna eitt verkefni umfram annað. Mig langar bara að spyrja vegna þess að þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir Reykvíkinga að Sundabrautin komist á koppinn og því langar mig að spyrjast fyrir um hvernig það mál standi og hvort hæstv. samgönguráðherra sjái flöt á því að koma með einhverja fjármuni til að ýta því verkefni af stað.

Að öðru leyti finnst mér jákvæður sá tónn sem er í áætluninni að auka eigi við í öryggismálum. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur núna og er raunar alltaf mikilvægt en ég sé að menn eru að huga sérstaklega að öryggismálum. Og enn fremur líka og það snertir auðvitað höfuðborgarsvæðið og er jákvætt fyrir það svæði að menn séu að fara lengra í því að tengja borgina með göngustígum og hjólastígum og slíkum hlutum. Mér finnst þetta svona önnur ásýnd samgöngumála sem er líka mjög mikilvægt, almennu samgöngurnar tengjast þessu auðvitað líka. En það er óhjákvæmilegt að fá nánari upplýsingar um stöðu framkvæmda í Reykjavík og það kemur verulega á óvart, ef ég skil þetta rétt, að á þessu tímabili fram til 2012 séu það 15 millj. sem eiga að fara í undirgöng við Klébergsskóla, sem er reyndar mjög brýnt verkefni vegna hættu sem þar stafar af umferð fyrir börn. En ég hygg að Reykvíkingar, í því andrými sem nú er, eigi von á meiru en hér er um að tefla. Ég ætla ekki að fara að bera saman kjördæmi, ég ætla ekki að gera það, ég er hins vegar ekki viss um að það yrði mjög hagstætt fyrir Reykvíkinga að gera slíkt.