138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er orðinn þingmaður Reykjavíkurkjördæmis, annars hvors, og gerði Sundabraut að umtalsefni. Hún vitnaði í töflu á bls. 57, að mig minnir, um einkaframkvæmdir, framkvæmdir sem við ætlum að fara í með lánum frá lífeyrissjóðum til að gefa í hvað varðar atvinnulífið. Sundabraut er ekki hér inni þó að hún hafi verið í því fylgiskjali sem fylgdi með stöðugleikasáttmálanum einfaldlega vegna þess að við vildum einskorða okkur við þau verkefni, sem á næstu missirum, skulum við segja, á að bjóða út og hrinda í framkvæmd. Sundabraut var ekki tilbúin — ég man ekki hvort það var 2014, 2015 eða jafnvel síðar. Sundabraut er stórt og mikið verk, ég veit ekki hvort ég á að segja 40 milljarðar eða hvað það er eftir því hvort við gerum Sundagöng, hábrú eða lágbrú með lyftu. Það fer eftir því hvernig það er gert en ég hef líka stundum sagt í gamansömum tón að eitthvað verði að vera eftir handa samgönguráðherrum sem koma á eftir mér og þá liggur kannski vel við að taka Sundabrautina. En við höfum einskorðað þessa vinnu alla eins og menn vita við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og að klára Reykjanesbraut og Vaðlaheiðargöng. Og svo er það samgöngumiðstöðin sem hv. þingmaður styður vel og ég þakka fyrir það sem hún gat um áðan.

Varðandi önnur atriði, virðulegi forseti, sem eru í þessari spurningu, eins og hvað varðar samgöngukerfið til og frá Landspítala, þá efast ég ekki um að rætt hefur verið við Vegagerðina, það hefur ekki komið inn á mitt borð sem slíkt í þeirri vinnu sem er núna í gangi en á vafalaust eftir að gera það. En hvað varðar það sem þarna var vitnað til og talað um þá heyrðist mér hv. þingmaður meira að segja lesa upp í þessu svari sem var frá mér — hvort það voru göng undir Kópavog líka, ég man það ekki, en það eru til ýmsir biðlistar eftir jarðgöngum vítt og breitt um landið og þar á meðal þeir sem hv. þingmaður nefndi, þeir hafa sést í samgönguáætlun áður.