138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt, og ég ætla að taka undir það sem kom fram fyrr í dag hjá hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur, að líta líka heildstætt á málin þegar samgöngur eru annars vegar og ekki einungis á þau svæði sem við sjálf búum á. En hins vegar er það svo að þegar kemur að samgönguáætlunum hafa þingmenn Reykjavíkur verið hljóðari — og ég hef kannski lært það, virðulegi forseti, í hinu ágæta Norðausturkjördæmi að tala um það kjördæmi sem ég starfa fyrir þegar kemur að þessum málum líka. Ég held að tími sé kominn til þess, virðulegi forseti, að Reykvíkingar fái sinn samgönguráðherra svo að hægt sé að hefjast handa við uppbyggingu Sundabrautar og önnur brýn verkefni í samgöngumálum.

Fjörutíu milljarðar, segir hæstv. ráðherra, þetta er tala sem þekkist gagnvart Sundabrautinni. Ég vil árétta enn og aftur að samgönguframkvæmdir eru mjög mikilvægar vegna alls ástandsins í þjóðfélaginu, vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu er verulegt atvinnuleysi og kallað er eftir verklegum framkvæmdum á öllum sviðum. Ég nefndi í ræðu minni að Reykjavíkurborg hefur reynt að ýta þar undir eins og hægt er og ég held að það sé líka verkefni ríkisstjórnarinnar að líta til þess ástands sem er á höfuðborgarsvæðinu. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til að gera það.