138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:40]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009 til 2012 og erum í síðari umr. Ég fór í ræðu minni í fyrri umferð nokkuð ítarlega yfir það sem ég taldi að sneri að því kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir og ræddi einnig um það að hugsanlega þyrftum við nýja hugsun, ekki eingöngu um samgönguáætlun heldur um nýtingu fjármagns almennt. Að menn hættu, eins og um var rætt, svokölluðu kjördæmapoti en horfðu til hagræðingar og til landsins í heild sinni og tækju inn í peningalega og félagslega hagfræði og alla þá þætti sem skipta máli þegar fjármagni er úthlutað.

Mig langar samt, herra forseti, að snúa mér aðeins að því kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir og horfa til þess vegar sem heitir Vesturlandsvegur. Ég spurði um þennan veg í fyrri umr. og fékk ágæt svör frá ráðherra en mig langar engu að síður að gera hann að umtalsefni nokkra stund. Þegar eru hafnar framkvæmdir frá því sem Vegagerðin kallar Hafravatnsveg og við Mosfellingar köllum Kóngsveg að Þingvallaafleggjara og á að tvöfalda þann kafla, sem liggur í gegnum bæinn miðjan og í kvosinni við Brúarland og á brúnni yfir Varmá. Þar er lítið hringtorg og mig minnir að þessu hringtorgi hafi verið breytt þegar kristnihátíðin var á Þingvöllum þannig að menn hafa getað ekið yfir það og því hefur það ekki þjónað þeim tilgangi sem það átti að þjóna, að draga úr hraða á því svæði, en á því er nú að verða breyting og þarna er fyrirhuguð tvöföldun. Það er vel og því fögnum við sem í Mosfellsbænum búum og allir sem um Vesturlandsveginn fara.

Menn hafa líka orðið varir við að við Leirvogstungu á mörkum nýs íbúðahverfis og Leirvogstungumela hafa verið opnuð mislæg gatnamót sem Vegagerðin og landeigendur hafa fjármagnað í sameiningu. Það er bragarbót og mikil bót á samgöngum fyrir þá sem sækja að Melunum, þá sem búa í nýju hverfi og þá sem sækja norður og suður Vesturlandsveginn vegna þeirrar hættu sem skapast hefur á því svæði. Hins vegar er, herra forseti, dálítið sérkennilegt að horfa á þau fínu mannvirki sem þar eru og sjá að við ætlum að láta staðar numið við tvöföldun Vesturlandsvegar við Þingvallaafleggjara. Þá er eftir u.þ.b. 500 metra langur bútur frá Þingvallaafleggjara að þessum vegamótum og síðan eru fyrir utan, norður að Leirvogsánni og áfram norður Kjalarnesið, einhverjir kílómetrar, sem ég þori ekki að fullyrða um hversu margir eru, sem munu mynda flöskuháls. Áætlað er að tvöfalda frá Kollafirði og þá geri ég ráð fyrir að það sé frá Kollafirði sem fyrirhugað er að Sundabrautin komi upp einhvern tíma í fjarlægri framtíð, upp að Hvalfjarðargöngum í gegnum Kjalarnesið og þéttbýlið á Kjalarnesi og er það vel. Ég ætla ekki að lasta þá hugmynd en ef við horfum til heildarinnar þá koma menn akandi norðan frá á einbreiðum Vesturlandsvegi við Akrafjallið, fara í göngin sem eru enn þá einbreið, koma upp úr göngunum sunnan megin, þar tekur þá við tvöfaldur vegur um það bil að því sem gömlu raflínurnar lágu yfir Kollafjörðinn, því að hugsanlega ætla menn að nýta sér Álfsnesið, Víðinesið og koma þar upp með Sundabrautina og halda síðan áfram upp á Kjalarnes. Þá tekur aftur við einbreiður vegur inn Kollafjörðinn í áttina að Mógilsá og síðan niður í Mosfellsbæinn, niður að þeim mislægu gatnamótum sem þar eru og einbreiður Vesturlandsvegur að Þingvallaafleggjara. Síðan er vegurinn tvöfaldur nokkurn veginn að Suðurlandsvegi þar sem Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur mætast. Ég verð að segja, herra forseti, að þegar maður horfir á þessa heildarsýn á einum fjölfarnasta vegi landsins veltir maður fyrir sér þessum svokallaða bútasaumi og hvort við séum virkilega að fara vel með fjármagn þegar við byrjum framkvæmdir og endum þær og erum alltaf að taka upp veginn á einhverjum stað aftur og aftur og aftur í stað þess að halda áfram með þessa tvöföldun. Í mínum huga, herra forseti, ætti einfaldlega að tvöfalda Vesturlandsveginn upp að Hvalfjarðargöngum vegna þess að ég sé satt best að segja ekki að við séum að fara í svokallaða Sundabraut í náinni framtíð. Hversu mikilvæg sem hún kann að vera fyrir marga þá sé ég ekki að fjárhagur íslenska ríkisins verði þannig í náinni framtíð að við höfum einfaldlega efni á því. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að í þeim einkaframkvæmdum sem við erum að fara í munu lífeyrissjóðirnir taka að sér verkefni og ég lasta það ekki. Ég fagna því, því ef það er eitthvað sem við þurfum nú er það innspýting í atvinnulífið.

Við komum til með að greiða þetta til baka. Við þurfum alltaf að vera meðvituð um það að þeir fjármunir sem fara núna utan efnahags eru fjármunir sem koma inn og við þurfum að greiða þá. Þó að einhver tími sé í það þá greiðum við þetta með einhverjum hætti og mér er umhugað um að við förum vel með fjármagnið og því velti ég því upp hvort hugsanlega sé skynsamlegra að hreinlega tvöfalda Vesturlandsveginn frá gatnamótum Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar og upp að Hvalfjarðarmunna og afnema þannig þá flöskuhálsa sem oftar en ekki myndast á þeim stað. Reyndar ekki oft á ári, herra forseti, ég er fullkomlega meðvituð um það, frekar en flöskuhálsar sem myndast víðs vegar um landið á annatímum. En ég held að menn þurfi og mættu skoða þá hugsun og velta henni fyrir sér. Nú kann að vera að Reykvíkingum finnist þetta ekki í samræmi við óskir þeirra fram til þessa. Það kann vel að vera enda er þessari hugmynd varpað fram til að menn velti fyrir sér sem bestri nýtingu fjármagns.

Það er líka annað, virðulegi forseti, sem ég held að þurfi aðeins að skoða. Á þeim kafla Vesturlandsvegar sem ég er að tala um er brú sem heitir Kaldakvísl. Ég held að það þurfi að velta því fyrir sér hvort og þá hvernig hægt sé að styrkja þá brú þannig að hún þoli þá þungaflutninga sem eiga að fara um Vesturlandsveginn vegna þess að nú er það svo að hún ber ekki ákveðinn þunga og sömu sögu er að segja um brúna yfir Laxá í Kjós og þá þurfa þungaflutningabílarnir að fara svokallað Kjósarskarð. Það er lengi búið að lofa Kjósverjum og fleirum því að farið verði í viðhald á Kjósarskarðsveginum. Því hefur verið frestað aftur og aftur. Engu að síður er þessi vegur nýttur. Þegar ákveðnir yfirþungavigtarbílar eiga að fara um Vesturlandsveginn þurfa þeir að fara inn Þingvallaveginn og fara Kjósarskarðið vegna þess að brýrnar þola þá einfaldlega ekki. Ég þori ekki að fullyrða, frú forseti, hversu mikill þungi það er og hversu oft það er en ég veit að hann er og ég veit að Kjósarskarðið hefur nú verið algerlega ófært. Þetta er líka ákveðin flóttaleið fyrir marga, ef stórslys verður á Vesturlandsvegi eða í göngunum þá þurfa þeir sem koma norðan að geta farið Hvalfjörðinn og Kjósarskarðsveginn þannig að huga þarf að því að halda honum við. Ég held að ég sé ekki, frú forseti, að fara með neitt fleipur hvað varðar þessa þungaflutninga en ég veit að Kjósarskarðsvegurinn hefur verið á áætlun lengi. Honum hefur ætíð verið kippt út og það er ekki af hinu góða.

Það eru svo sem fleiri vegir. Vegur í Kjósinni er kallaður Meðalfellsvegur og er vegurinn við Meðalfell og Meðalfellsvatn. Þar er byggð orðin nokkuð þétt. Þetta er vegur á vegum Vegagerðarinnar eftir því sem ég kemst næst. Þar er búið að lækka umferðarhraðann niður í 50 km en eins og svo oft áður virða ökumenn ekki hámarksumferðarhraða. Þarna býr margt ungt fólk sem óttast um börnin sín á þessum vegi sem allt í einu er orðinn fjölfarnari en löngum fyrr og hugsanlegt að Vegagerðin þurfi og hæstv. ráðherra í framkvæmdaáætlun sinni með einhverjum hætti að velta fyrir sér hvort ekki þurfi að horfa til þess vegar með einum eða öðrum hætti til að draga úr hraðakstri.

Frú forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að í samgöngumálum almennt þyrftum við líklega nýja hugsun. Okkur hefur verið tíðrætt um nýtt Ísland eftir hrunið í október 2008. Menn hafa rætt í þessum sal um nýja Ísland. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa rætt um ný vinnubrögð hins nýja Íslands, en við sem hér sitjum höfum ekki orðið vör við þau. Við urðum því miður ekki vör við þau á þinginu sem við sátum frá því í maí 2009 og því þingi sem nú er að ljúka. Við sátum á vorþingi 2009 fram í september, hófum nýtt þing haustið 2009 og því er að ljúka hér og nú. Vinnubrögðin á hinu háa Alþingi eru nákvæmlega þau sömu. Ekkert hefur breyst. Í mínum huga, frú forseti, nægir okkur ekki að tala um nýtt Ísland, nýja hugsun og ný vinnubrögð ef við festumst svo í því sama. Það má segja, frú forseti, að það að ræða um það kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir í þessari umræðu sé gamla hugsunin á gömlum grunni en ég var einfaldlega að velta því fyrir mér hvort fjármagninu væri ekki betur varið ef menn leyfðu sér að horfa heildrænt á t.d. þann veg sem heitir Vesturlandsvegur, fara ekki í þann bútasaum sem viðgengist hefur frá því að tvöföldun hans hófst. Frá því að gatnamótin við Víkurveg komu og frá því að gatnamótin við Suðurlandsveg komu hefur þessi vegur næstum því árlega eða á nokkurra ára fresti verið í eilífri upplausn, ef við getum orðað það svo. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra til að velta því alvarlega fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegra að halda áfram tvöföldun Vesturlandsvegar frá Þingvallaafleggjara og upp í Kollafjörð heldur en að loka nú við Þingvallaafleggjarann og skilja eftir dágóðan bút og ætla síðan að tvöfalda frá Hvalfjarðargöngum og inn yfir þéttbyggðina á Kjalarnesi.

Frú forseti. Að lokum vil ég taka fram að ég sem þingmaður Suðvesturkjördæmis styð samgönguáætlun landsins í heild. Ég styð þær framkvæmdir sem menn eru að fara í, ég styð framkvæmdir á Suðurlandsvegi, ég styð framkvæmdir í Norðvesturkjördæmi en leyfi mér að hafa skoðun á því að fjármagninu sem við höfum til skiptanna sé varið á eins hagkvæman hátt og mögulegt er. Þá er ég jafnt að taka tillit til hagfræðinnar út frá peningalegum og félagslegum sjónarmiðum. Það skiptir máli fyrir okkur sem byggjum þetta land. Margoft hefur komið fram í dag að góðar samgöngur séu forsenda fyrir byggð í landinu. Þær eru líka forsenda fyrir því að ýmis atvinnustarfsemi verði stunduð vítt og breitt um landið og að hægt sé að koma að og frá flestum stöðum á sem greiðfærastan og bestan hátt öllum nytjavörum, útflutningsvörum að og útflutningsvörum frá. Þannig eflum við landið og byggðirnar, þannig eflum við atvinnulífið og gerum það væntanlega fjölbreyttara en við horfum til akkúrat nú. En mestu skiptir, frú forseti, að það fjármagn sem við höfum í samgönguáætlun sé nýtt sem best, öryggi umferðarinnar skiptir miklu máli fyrir þjóðina, fyrir samfélagið allt og ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þær tillögur sem ég hef lagt fram til endurskoðunar eða skoðunar og velta upp hvort þær séu til langs tíma litið kannski heppilegri lausn en sú sem við erum akkúrat að skoða hér og nú.