138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í seinni umræðu þingsályktunartillögu vegna samgönguáætlunar 2009–2012, sem er mikið plagg upp á tæpar 90 síður. Margir þingmenn hafa komið inn á þessi mál og frá ólíkum sjónarhóli enda skipta samgöngumál alla íbúa landsins mjög miklu máli. Ætli ekki megi segja að þau skipti þá íbúa hvað mestu máli sem búa afskekktast og eru gersamlega háðir samgöngum, hvort sem er í lofti, á láði eða á legi.

Ég ætla að byrja að ræða almennt um stefnumótun. Hér hefur nokkuð verið rætt hvernig samgönguáætlanir eigi að vera uppbyggðar, hvort þær eigi að vera byggðar upp á kjördæmum, eins og venja hefur verið, en einnig með almenn sjónarmið sem grunn. Fyrst og fremst þarf auðvitað að skilgreina ýmsa hluti áður en menn fara í stefnumótun. Það hefur verið gert í samgönguáætlun síðustu ára þar sem menn hafa verið að miða að því að hafa ferðatíma til höfuðborgarinnar innan ákveðins ramma, fjögurra tíma ef ég man rétt. Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa svona markmið sem menn stefna að. Einnig þarf að skilgreina ýmsa aðra þætti þegar litið er til vegáætlunar. Það þarf að skilgreina vegi í mismunandi flokka eftir því hvort þeir eru stofnbrautir, tengivegir, héraðsvegir eða hvað þeir heita núorðið í dag, safnvegir. Það er ágætt að rifja það upp að þegar við fyrir margt löngu vorum ekki komin eins langt í uppbyggingu á vegakerfinu eins og við erum í dag, var auðvitað fyrsta verkefnið að koma á stofnbraut, hringvegi okkar um landið. Síðan voru lagðar einstaka stofnbrautir þar út frá til að tengja stærstu þéttbýliskjarna og síðan koll af kolli.

Auðvitað er það þannig að kjördæmabreytingar hafa haft ýmis áhrif á hlutföll þegar menn skoða jafnræði á milli kjördæma og milli svæða. Það er líka ljóst að atriði eins og umferðarþungi hefur haft miklu meiri áhrif en það eitt hvort hvert svæði hafi náð jafnmörgum kílómetrum í stofnbrautum, tengivegum eða safnvegum eða hvað þeir heita í dag, héraðsvegirnir. Áður fyrr var til að mynda skilgreiningin á stofnvegi sú, ef ég man rétt, að ef þar keyrðu um 100 bílar á sólarhring þyrfti að byggja upp slíkan veg. Í dag eru fjölmargir vegir sem ekki teljast til stofnbrauta en þar keyra kannski 300, 700, jafnvel yfir 1000 bílar á sólarhring á einstaka svæðum. Þeir eru samt ekki þannig skilgreindir að þeir séu í forgangi og byggja eigi þá upp sem varanlega vegi með slitlagi eða slíkt. Þess vegna er nauðsynlegt að átta sig á því að það þarf að fara yfir skilgreiningar.

Ríkisstjórnin hefur verið iðin við það, og einstaka þingmenn stjórnarflokkanna, að ræða um sóknaráætlun svokallaða. Hún hefur að markmiði að sækja fram og styrkja einstök svæði á landinu og það verður að ræða það opinskátt. Ég er stuðningsmaður þeirrar hugmyndafræði að menn ræði um möguleika einstakra svæða til að sækja fram heildrænt. Þegar menn tala um niðurskurð á ólíkum sviðum, sameiningu ríkisstofnana, er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því að sóknaráætlunin gildir fyrir öll ráðuneyti og öll svið ríkisvaldsins, en á það hefur verulega skort. Menn hafa skorið niður og sameinað stofnanir á einum stað, byggt upp nýtt kerfi í öðrum ráðuneytum og því miður hefur ekki verið samræmi á milli.

Ég heyrði að hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir ræddi um nauðsyn þess að fara í þessar sóknaráætlanir til að byggja upp mjög sterka kjarna og ég tek undir að það geti verið áhugavert. Það má velta því fyrir sér hvort það yrði gert á kostnað hins dreifða dreifbýlis og nú á erfiðum tímum þegar við höfum takmarkaða fjármuni muni það koma niður á þeim sem síst mega við því. Í því sambandi vil ég rifja það upp sem ég nefndi í fyrri ræðu minni að á þessum tímum gildir það um samgöngumál eins og mörg önnur mál, að það er mikilvægast að tryggja grunnþjónustuna, lágmarksþjónustu um land allt, áður en við getum dreift út fjármunum til annarra hluta.

Það er augljóst af þessari áætlun, frú forseti, að við höfum úr ákaflega takmörkuðum fjármunum að spila og lítið til skiptanna, hvort sem við tölum um flugáætlun, hafnaáætlun eða vegáætlun. Fyrir vikið vantar auðvitað ýmsa þætti inn í og maður gæti rætt um.

Talsverð umræða hefur verið um hvort þingmenn séu fastir í því að ræða um sitt eigið kjördæmi þegar almenn stefnumótun á að ganga út frá heildarhagsmunum landsins. Auðvitað gerum við það. Við miðum auðvitað umræðuna út frá heildarhagsmunum alls landsins en við sem erum þingmenn einstakra kjördæma höfum auðvitað betri þekkingu á þeim hluta landsins og getum þar af leiðandi tjáð okkur betur um það og vitum hvað brennur á fólkinu í kjördæminu. Þess vegna er óhjákvæmilegt og fullkomlega eðlilegt að nefna ákveðna hluti úr sínu eigin kjördæmi.

Mig langaði að tæpa á einu í ræðu minni í síðari umræðu þingsályktunartillögunnar, sem ég kom reyndar inn á í fyrri ræðu en hafði takmarkaðan tíma til að fara í gegnum allt það víðfeðma efni. Í upphafskafla samgönguáætlunar eru sett nokkur yfirmarkmið sem eru út af fyrir sig nokkuð góð. Þar er til að mynda markmið um greiðari samgöngur sem gengur auðvitað fyrst og fremst út á að stytta leiðir, til að mynda með jarðgöngum og að gera betri vegi sem seinka ekki för manna. Það er víða hægt að gera það og mig langar að nefna eitt sem ekki hefur heyrst mikið um hér úr ræðustólnum. Ef við tölum um svæðið á Suðurlandi yrðu jarðgöng þar sennilega þau arðbærustu á landinu í dag, göng í gegnum Reynisfjall við Vík í Mýrdal. Þótt þar sé kannski ekki í hugum margra stórkostlegur farartálmi er það engu að síður farartálmi fyrir flutningabíla sem þurfa gjarnan að keðja þarna og talsvert er um snjómokstur og hálkuvarnir. Þetta er í raun og veru eini staðurinn á leiðinni þar sem bílarnir þurfa að gera þetta og hefur auðvitað talsverðan kostnað og seinkun í för með sér þegar vörur eru fluttar austur á land og til Reykjavíkur og eins í flug.

Þetta er eitthvað sem þyrfti að skoða til lengri tíma, þótt ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að við setjum þetta ekki nú í þessa fjögurra ára áætlun.

Síðan er annað markmið um hagkvæmni og uppbyggingu í rekstri samgangna. Þar koma til ýmsir hlutir sem menn vilja skoða. Þetta eru sex atriði, og eitt var svolítið áhugavert sem við höfum kannski gleymt í uppgangi síðustu ára. Við höfum oft farið dýrari leiðina og krafist þess besta en hér er lagt til að leitað verði ódýrari leiða til að leggja bundið slitlag á umferðarlitla vegi. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt og skynsamlegt. Þetta gæti þýtt að þjónusta og viðhald á þessum vegum yrði minna og ódýrara til lengri tíma litið en mundi skipta íbúa og þá sem ferðast um þessa vegi miklu máli.

Það sem ég saknaði við yfirlestur kaflans um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna var að ekki er minnst einu orði á umferðarþunga. Hann hlýtur að vera lykilatriði í því hvort um hagkvæmni í uppbyggingu eða rekstri viðkomandi samgangna sé að ræða.

Einnig er hér fjallað um markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur. Þar er tekið tillit til ýmissa þeirra þátta sem við horfum til í dag hvað varðar orkusparandi aðgerðir og að finna sjálfbærari orkueiningar sem við sjálf framleiðum innan lands og nýta bíla eins og rafmagnsbíla, metanbíla eða tvinnbíla og annað í þeim dúr. Einnig þarf að velta fyrir sér auknum almenningssamgöngum og slíkum hlutum. Rétt er að minnast á það að um leið og bílarnir verða hagkvæmari, og þeir þurfa svo sannarlega að verða það til að þessi breyting verði, þá þurfum við samhliða að velta því upp hvernig við ætlum að haga gjaldheimtu af umferðarmannvirkjum. Það ræðum við kannski síðar í dag þegar við ræðum hugsanlegt sérstakt fyrirtæki sem mundi koma að þessum samgönguverkefnum. Gjaldheimtan af vegakerfinu þyrfti að vera með öðrum hætti en olíugjald eða bensíngjald sem mundu óhjákvæmilega leggjast af ef allir bílar væru til að mynda rafmagnsbílar. Þá þurfum við að velta fyrir okkur hvernig við náum þeim tekjum til ríkisins sem þarf til að standa undir rekstri og uppbyggingu vegakerfisins.

Þá komum við að öðru markmiði, markmiði um öryggi í samgöngum. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt atriði. Við þekkjum öll hversu hryllileg slysin geta verið, dauðaslys og alvarlegri slys, en ekki síður þau sem minni háttar eru. Þau geta valdið talsverðu tjóni, bæði fyrir fólk og einnig fjárhagslegu tjóni. Það má svo sem með sanni segja að þokast hefur í rétta átt ef við lítum á yfirlit yfir slasaða og látna á síðustu 15 árum. Vonandi erum við á réttri leið. Það skiptir máli að áfram sé unnið samkvæmt ákveðnum áætlunum og menn meti á hverjum tíma hvað þurfi til, m.a. fækkun eða helst útrýmingu á einbreiðum brúm, sérstaklega við svokallaða svartbletti, og annað í þeim dúr sem skiptir miklu máli.

Í þessum þætti vakti það líka athygli mína að hvergi var minnst á umferðarþunga eða þá auknu umferð sem víða er og hefur einmitt valdið verulegri hættu á þeim vegum sem eru ekki uppbyggðir fyrir svo gríðarlegu umferð, t.d. malarvegir þar sem aka orðið 500–800 bílar á sólarhring og gjarnan um að ræða ökumenn sem ekki kunna eða þekkja hvernig aka skuli á slíkum vegum. Fyrir utan það að þeir vegir verða gjarnan mjög oft og fljótt ónýtir og ónothæfir vegna þess að umferðin er auðvitað langt umfram það sem eðlilegt má teljast. Svo ég minni á það sem ég sagði í upphafi var skilgreining Vegagerðarinnar sú að byggja þyrfti upp vegi þegar umferðarþunginn væri kominn yfir 100 bíla á dag. Það má víða fara inn á vefmyndavélar eða þar sem skoðaður er fjöldi bíla í umferð á vegagerdin.is og víðar, til að sjá hversu margir vegir það eru og hvernig umferðarþunginn er dreifður um landið.

Síðan er hér markmið um jákvæða byggðaþróun. Það er gleðilegt að það sé sett inn líka. Þar af leiðandi verður við ákvörðun um forgangsröðun verkefna að horfa til þess hvernig við sjáum byggðaþróunina þróast á jákvæðan hátt og að menn búi í raun og veru til svokölluð heildstæð atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæði. Það skiptir gríðarlegu máli.

Vegna umræðunnar sem hefur verið talsverð í þinginu á síðastliðnu ári um markmið ríkisvaldsins og auðvitað okkar allra að auka atvinnu í landinu, þá saknaði ég þess að eitt markmiðið skyldi ekki heita markmið um mannaflskrefjandi verkefni. Það væri sannarlega hægt að lista upp fjölmörg verkefni sem væru sérlega mannaflskrefjandi og meira en önnur. Það er áhugavert að ræða það hvort fjármunum sé betur varið í jarðgangagerð einmitt á þessu ári, yfirstandandi ári 2010 og 2011 þegar við höfum takmarkaða fjármuni, eða hvort við ættum ekki einmitt á þessu ári og því næsta að útrýma til að mynda einbreiðum brúm þar sem auðvelt er að koma því í gang að hefja framkvæmdir.

Ég held ég hafi nefnt það í fyrri ræðu minni að bara í Austur-Skaftafellssýslu eru um 22 einbreiðar brýr á hringvegi 1. Það væri auðvitað áhugavert að fara í slíkt. Það mætti hugsa sér að þetta yrði gert um allt landið og margir smærri verktakar kæmu að því, bæði smiðir og jarðvegsverktakar. Ég er sannfærður um að þetta verkefni væri hægt að setja af stað með til þess að gera litlum fjármunum en mundi koma mörgu í gang á mörgum stöðum. Ef við berum það saman til að mynda við ein jarðgöng, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr þörfinni á þeim, eru þeir fjármunir lokaðir á einum stað og kostnaðurinn við tækin talsvert meiri þannig að mannaflsfjöldinn er hlutfallslega mun lægri.

Ég ætlaði að nefna líka sjóvarnir og þá sjóvarnargarðinn í Vík. Ég vil hvetja ráðherra, hann er reyndar ekki staddur hér í augnablikinu, til að standa með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis og aðstoða sveitarfélagið í Mýrdalshreppi við að tryggja að sjóvarnargarðurinn fari af stað í haust. Skipulagsmál þar að lútandi eru komin í gegn. Þar hefur verið ágreiningur um veglagningu, en ég held að ég megi segja að enginn ágreiningur sé nú um sjóvarnargarðinn og legu hans. Sá hluti er kominn í gegnum Skipulagsstofnun og er hjá hæstv. umhverfisráðherra. Það er því rétt að hvetja þá báða hæstv. ráðherrana til að koma að þessu með þingmönnum Suðurkjördæmis og tryggja að þetta fari í gang í haust. Þetta er verkefni sem gæti haft mjög jákvæð áhrif á þessum litla stað fyrir utan nauðsyn þess að verja þorpið fyrir óvæntum ágangi sjávar, eða ekki svo óvæntum, í vetur hefur gengið ágætlega að safna upp í fjöruna en það þarf ekki nema eitt gott vestanveður til að rífa það allt í burtu.

Ég ætlaði að nefna einkahlutafélagið um uppbyggingu á samgöngum en ég ætla að geyma það, ég sé að tími minn gengur nokkuð hratt. Ég ætla að minnast á girðingar en ég hef sent fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra þess efnis að fá yfirlit yfir reglur um þær. Ég hef grun um að girðingar séu flokkaðar með ólíkum hætti og það þurfi að fara yfir reglur í sambandi við stofnkostnað og viðhald, ekki síst hreinsun meðfram vegum eftir umdæmum Vegagerðarinnar hringinn í kringum landið. Ég held að sé áhugavert að fara yfir þetta því þessu er víða mjög ábótavant. Sums staðar er bann við lausagöngu búfjár, annars staðar ekki. Sums staðar virðist Vegagerðin greiða til eðlilegs viðhalds, þá er ég að tala um girðingar sem kannski voru girtar fyrir 20–30 árum áður en lög um endurgreiðslur á viðhaldskostnaði voru settar. Þessi atriði þyrfti að skoða. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra og ráðuneytið ásamt Vegagerðinni að fara yfir þau mál og býst við svari við skriflegri fyrirspurn minni sem fyrst svo halda megi áfram með það.

Að lokum langar mig að minnast á sóknarfærin sem víða eru og minnst hefur verið á í þessum umræðum. Hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir nefndi þingsályktunartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að um að kanna hagkvæmni ferjusiglinga til Vestmannaeyja til að nýta Landeyjahöfnina. Það væri áhugavert að heyra hvort ráðherrann og ráðuneytið tækju ekki vel í slíkt og gætu unnið að því þó svo sú þingsályktunartillaga muni væntanlega ekki fá brautargengi á þessum síðustu klukkutímum þingsins, þ.e. seinni umr. En tillögunni var ákaflega vel tekið í fyrri umr.

Ég held að ég láti þessu lokið í þessum (Forseti hringir.) umgangi, enda tíma mínum lokið og sé til hvort við komum fleiru að seinna í dag.