138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki fara hér út í miklar lagaskýringar en ég tel að ef hér yrðu sett lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna séu þau svo sem, ef út í það er farið, metin hærra en nefndarálit um umsókn um Evrópusambandið. Það þýðir samt ekki að ekki sé hægt að fara í gegnum Lýðræðisstofu eða eitthvert apparat til að það sé alveg öruggt að í þeirri atkvæðagreiðslu sé rétt og vel staðið að öllum málum.

Ég ætla ekki að þrasa við hv. þingmann meira um þetta. Ég tel að það sem skipti mestu máli í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort heldur hún er um aðild að Evrópusambandinu eða eitthvað annað, sé að rétt og vel sé að henni staðið og að fólk í landinu viti nákvæmlega um hvað það er að kjósa.