138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[20:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um allar breytingartillögur hv. samgöngunefndar í einu lagi. Ég vil vekja sérstaklega athygli á tveimur þeirra, annars vegar þar sem er lagt til að liðurinn um öryggismál sjómanna, sem í upprunalegu tillögunni var 10 milljónir bæði árið 2011 og 2012, hækki aftur upp í 20 milljónir eins og var á árinu 2010. Ég tel það mikinn sigur fyrir samgöngunefnd að fá það samþykkt vegna þess að þetta er eina útgjaldaaukningin sem er lögð til í samgönguáætlun frá því að hún var lögð fyrst fram. Það eru þessar 20 milljónir, annars vegar 10 milljónir á árinu 2011 og hins vegar 10 milljónir á árinu 2012. Ég vil ítreka þetta.

Eins vil ég gera grein fyrir því að í þessari áætlun er gert ráð fyrir 20 millj. kr. til framkvæmda við Dýrafjarðargöng, sem ekki voru í upprunalegu áætluninni. Þetta er reyndar mjög lítið skref af þeim stóru sem fram undan eru (Forseti hringir.) en eigi að síður er það ákveðið merki um að Dýrafjarðargöng eru enn þá inni í áætluninni.