138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[20:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012 er hér til lokaatkvæðagreiðslu og ég vil nota tækifærið og þakka hv. samgöngunefnd fyrir góða vinnu við það sem hér hefur verið lagt fram. Eins og komið hefur fram er þetta gert við afar erfiðar aðstæður hjá þjóðinni, fjárhagslegir erfiðleikar eru miklir, en samt sem áður sýnist mér að við samþykkjum hér áætlun sem tekur rúma 100 milljarða á fjórum árum eða 25 milljarða á ári.

Ég ætla að geyma mér þar til síðar að bregðast við því sem kom fram í atkvæðaskýringum nokkurra hv. þingmanna áðan um skiptingu milli kjördæma. Ég bendi aðeins þingmönnum á að skoða að hér eru verk í gangi í nokkrum kjördæmum sem langt er síðan að hófust. Ég get því miður ekki þakkað mér það einum, það voru margir sem komu að þeim verkum. Þau kosta mikla peninga og taka mikið til sín og eru hluti af þeim mikla (Forseti hringir.) pakka sem er í gangi á þessu ári fyrir hvorki meira né minna en 11,5 milljarða. (Forseti hringir.)

Ég ítreka þakkir mínar til hv. samgöngunefndar allrar fyrir góða vinnu og mikla samstöðu.