138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. umhverfisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, á þingskjali 1211.

Nefndin hefur fengið á sinn fund fjölmarga gesti sem upp eru taldir á nefndarálitinu, fimmtu uppprentun þess, og ég vísa til þess, ég ætla ekki að lesa þá alla upp. Ég vek athygli á því að það nefndarálit sem hér er kynnt er ný útgáfa, önnur en sú sem birtist á vefsíðu Alþingis fyrir helgi ef það kynni að valda misskilningi. Þetta er fimmta uppprentun, nefndarálit sem gengið var frá síðastliðinn mánudagsmorgun.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur. Breytingunum er einna helst ætlað að kveða ítarlegar á um málsmeðferðarreglur þegar sótt er um leyfi til að markaðssetja, sleppa eða dreifa af ásetningi erfðabreyttum lífverum. Meðal annars er kveðið á um að leyfisbeiðandi skuli láta fara fram mat á umhverfisáhættu þegar hann sækir um leyfi til að sleppa eða dreifa erfðabreyttum lífverum auk þess sem nýjum ákvæðum er að meginstefnu ætlað að tryggja að almenningur hafi meiri aðgang að upplýsingum og ákvarðanatöku en verið hefur þegar erfðabreyttar lífverur eru annars vegar. Þá er lagt til að við lögin bætist gjaldskrárheimild. Samkvæmt gildandi lögum er Umhverfisstofnun nú þegar heimilt að krefja umsækjanda um endurgreiðslu kostnaðar vegna sérstakra rannsókna eða úttekta sem gera þarf vegna umsóknar enda hafi umsækjanda verið tilkynnt um kostnaðinn og hann haft tækifæri til að draga umsókn sína til baka áður en til hans stofnast. Við þetta bætist nú heimild til að krefjast endurgreiðslu kostnaðar vegna kynningar sem fer fram á umsókn. Meiri hlutinn áréttar að ákvörðun um gjaldtöku fyrir kynningu og samráð skuli vera gagnsæ og skilmerkileg og telur nefndin að ákvæði 14. gr. frumvarpsins uppfylli það.

Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/ EBE. Frumvarpið var fyrst lagt fram á 136. þingi og rann frestur Íslands til að innleiða tilskipunina í íslenska löggjöf út 28. mars 2008. Á 137. þingi, þ.e. á síðasta þingi, afgreiddi umhverfisnefnd málið frá sér með nefndaráliti og breytingartillögum. Málið hlaut þó ekki lokaafgreiðslu á því þingi en frumvarpinu hefur þó að mestu leyti verið breytt, að þessu sinni til samræmis við tillögur nefndarinnar.

Nefndin hefur fjallað um málið og telur meiri hlutinn mikilvægt að almenningur hafi aðgang að upplýsingum og ákvarðanatöku vegna mála er varða sleppingu, dreifingu eða markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Þrátt fyrir að meiri hluti þeirra breytingartillagna sem lagðar voru fram á 137. löggjafarþingi hafi verið færðar í frumvarpið telur nefndin að þörf sé á frekari breytingum.

Frumvarpið leggur til breytingar á markmiðsgrein laganna til að hnykkja á varúðarreglunni, eða því sem nefnt er Precautionary Principle, sbr. 4. gr. tilskipunarinnar og 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Nefndinni hafa verið kynnt sjónarmið þess efnis að ekki væri rétt að fullyrða í markmiðssetningunni um skaðsemi erfðabreyttra lífvera og er tekið tillit til þeirra athugasemda í nefndarálitinu. Því er kveðið á í breytingartillögu um hugsanlega skaðleg og óæskileg áhrif. Er hér ekki um að ræða efnisbreytingu þar sem þetta samrýmist inntaki varúðarreglunnar. — Til að skýra þetta betur er orðinu „hugsanlega“ bætt inn.

Í tengslum við 2. gr. frumvarpsins ræddi nefndin nokkuð innflutning og merkingar á vörum sem innihalda erfðabreyttar lífverur. Meiri hlutinn áréttar að þrátt fyrir að lögin taki til innflutnings og merkinga, markaðssetningar, sölu og annarrar afhendingar erfðabreyttra lífvera og vöru eða hluta úr vöru sem inniheldur þær taka þau ekki til matvæla til manneldis. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að rétt væri að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins nr. 1829/2003/EB um erfðabreytt matvæli og fóður og nr. 1830/2003/EB um rekjanleika og merkingu erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem inniheldur erfðabreyttar lífverur. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að neytendur séu upplýstir um innihald þeirra matvæla sem þeir neyta og leggur áherslu á að umræddar reglugerðir verði innleiddar sem fyrst.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á a-lið 2. gr. frumvarpsins enda er ákvæðið ekki í samræmi við samsvarandi ákvæði tilskipunarinnar. Til samræmis eru einnig lagðar til breytingar á a-lið 7. gr. og 2. mgr. 13. gr. Til þess að gildissvið laganna sé í samræmi við tilskipunina er lögð til breyting á þessu orðalagi.

Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 4. mgr. 2. gr. laganna verði felld brott þar sem kveðið er á um að við framkvæmd laganna skuli höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð. Fyrir nefndinni kom fram mikil og hávær gagnrýni á að fella ætti ákvæðið brott og telur meiri hlutinn ákvæðið mikilvægt vegna sérstöðu náttúru landsins, hinnar fábreyttu flóru og viðkvæms vistkerfis sem rekja má til norðlægrar legu landsins. Þá telur meiri hlutinn rökstuðningi við þessa breytingu ábótavant og leggur til að ákvæðið haldist í lögunum.

Í c-lið 3. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á hugtakinu „slepping og dreifing“. Í frumvarpstextanum er víðast hvar eingöngu notað orðið „slepping“ sem hefur ekki sjálfstæða orðskýringu. Í lögunum sjálfum eru þessi orð ávallt notuð til samræmis við orðskýringu. Til að gæta lagasamræmis og þess að merking laganna sé skýr leggur meiri hlutinn til að eins verði farið með þetta í frumvarpinu.

Meiri hlutinn leggur einnig til þá breytingu að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um fullnægjandi tálmanir sem hindra að slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur, líffræðilega fjölbreytni eða umhverfið.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á 15. gr. frumvarpsins enda er ákvæðið ekki í samræmi við samsvarandi ákvæði tilskipunarinnar þar sem í 9. gr. hennar er kveðið á um að aðildarríki skuli hafa samráð um fyrirhugaða sleppingu, dreifingu eða markaðssetningu við almenning og eftir því sem við á við tiltekna hópa. Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að einungis verði um heimildarákvæði að ræða. Nefndin telur rétt að leiðrétta misræmi hvað þetta varðar í orðalagi íslenskrar þýðingar tilskipunarinnar og enskrar útgáfu hennar. Til að gera samráðsferlið aðgengilegt og almennt er mikilvægt að ljóst sé hvaða reglur og tímafrestir gilda um samráð og leggur því meiri hlutinn til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð sem kveði nánar á um fyrirkomulag samráðsins, tímafresti o.fl.

Meiri hlutinn fjallaði um nauðsyn þess að útskýra nánar hvað felst í hugtökunum líffræðilegur fjölbreytileiki, í hugtakinu varúðarreglu og hugtakinu sjálfbærri þróun og leggur meiri hluti nefndarinnar til breytingartillögu þess efnis.

Ég ætla að gera grein fyrir þessum orðskýringum eins og þær eru kynntar í breytingartillögunni. Líffræðileg fjölbreytni er skýrð þannig að eins og hugtakið lífríki nái hugtakið til allrar lifandi náttúru, eininganna sem hún er gerð úr og birtingarforma hennar. Líffræðileg fjölbreytni spannar náttúrulegan og manngerðan breytileika á öllum skipulagsstigum lífsins, frá erfðavísum og tegundum til vist- og lífkerfa.

Sú orðskýring sem lögð er til um sjálfbæra þróun hljóðar þannig:

„Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum kynslóða til að mæta þörfum sínum.“ — Hér á að standa komandi kynslóða, frú forseti, og ég geri þá athugasemd. — „Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar, sbr. 1. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992.“

Hugtökin slepping eða dreifing eru skilgreind þannig: „Slepping eða dreifing er sú aðgerð þegar erfðabreyttar lífverur, eða vara eða hluti úr vöru sem hefur þær að geyma, eru ræktaðar, aldar eða þeim sleppt eða dreift af ásetningi utan húss án þess að þær séu lokaðar af með fullnægjandi tálmunum sem hindra að þær geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur, líffræðilega fjölbreytni eða umhverfið.“

Hér hefur bæst inn í orðskýringuna um sleppingu af ásetningi og vörur eða hluta úr vöru sem innihalda erfðabreyttar lífverur.

Varúðarreglan er síðan skýrð þannig að hún feli í sér að þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skuli ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Það felur í sér að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar aðgerða fyrir umhverfið skuli náttúran njóta vafans í samræmi við 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992.

Aðrar breytingartillögur sem nefndin gerir birtast í sjálfu nefndarálitinu á þingskjali 1211.

Vegna misskilnings sem gætt hefur varðandi upplýsinga- og samráðsskyldu almennings vill meiri hluti umhverfisnefndar árétta að skylda Umhverfisstofnunar til að upplýsa um sleppingu erfðabreyttra lífvera, sem kveðið er á um í b-lið 7. gr., er ekki af sama toga og skylda stofnunarinnar til samráðs skv. 15. gr. frumvarpsins. Stofnuninni er skylt að upplýsa um sleppingu en áður en slík slepping á sér stað skal í samræmi við breytingartillögu nefndarinnar hafa samráð og nær það samráð til fyrirhugaðrar sleppingar, dreifingar eða markaðssetningar erfðabreyttra lífvera.

Að lokum vill meiri hlutinn árétta mikilvægi þess að ráðgjöf vegna starfsemi erfðabreyttra lífvera sé ekki einungis byggð á náttúruvísindum heldur einnig á siðferðislegu og samfélagslegu mati. Mikilvægt er að þessi sjónarmið vegi jafnþungt á metum.

Þá leggur meiri hlutinn til smávægilegar breytingar til leiðréttingar á tilvísunum í kafla og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið kynntar og enn fremur þeim breytingum sem fram koma á nefndarálitinu á bls. 3 og 4.

Undir nefndarálitið rita Ólína Þorvarðardóttir, formaður, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Margrét Pétursdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Það má geta þess, frú forseti, í þessu samhengi að nefndin fjallaði allítarlega um frumvarpið. Hún hélt um það átta fundi og allnokkur vinna var lögð í nefndarálit sem hér liggur fyrir. Það er alveg ljóst að þetta mál snýst ekki um það hvort við erum með eða á móti starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Sú starfsemi fer fram í landinu nú þegar og starfandi eru fjölmörg líftæknifyrirtæki sem vinna með ræktun og tilraunir með erfðabreyttar lífverur. Hér er einungis verið að styrkja lagarammann og regluverkið utan um slíka starfsemi. Ég er þeirrar skoðunar að málið hafi fengið góða og ítarlega umfjöllun í umhverfisnefnd og ég vil nota tækifærið og þakka nefndarmönnum, jafnvel þeim sem ekki eru á nefndarálitinu, fyrir samstarfið og fróðlegar og gagnlegar umræður sem fóru fram í nefndinni um málið.