138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Áður en ég geri grein fyrir því nefndaráliti sem hér liggur fyrir á þingskjali 1330 vil ég taka undir ákveðna þætti í máli hv. formanns umhverfisnefndar, Ólínu Þorvarðardóttur. Það er vissulega svo að í sambandi við þetta frumvarp er ekki verið að taka afstöðu til þess í sjálfu sér hvort fyrir hendi skuli vera starfsemi sem byggir á erfðatækninni í sambandi við erfðabreyttar lífverur og rétt er að sú tækni er nýtt hér á landi. Greinilegt að það eru gríðarlega heitar tilfinningar og mjög skiptar skoðanir víða í samfélaginu um þann þátt en frumvarpið sem slíkt snýst ekki um þá grundvallarspurningu, það er hárrétt hjá hv. formanni nefndarinnar. Hins vegar verður ekki hjá því komist að geta þess að frumvarpið snýst að hluta til, a.m.k. að nokkrum hluta, um það hversu auðvelt eða erfitt fyrirtækjum sem byggja á þessari tækni í starfsemi sinni á að vera að starfa hér á landi. Um það held ég að núningsfletirnir á málinu snúist. Vilja menn gera málsmeðferð og aðra þætti sem snúa að starfsumhverfi fyrirtækja og annarra aðila sem starfa á þessu sviði þyngri í vöfum eða vilja menn gera þá léttari? Það er önnur hliðin. Hin hliðin er auðvitað sú hlið sem snýr að hagsmunum og réttindum annarra en þeirra sem beinlínis starfa á þessu sviði, hvernig hagsmuna þeirra er gætt, og eins og getið er um í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar er þar auðvitað stöðugt um hagsmunamat að ræða.

Eins og hv. formaður umhverfisnefndar gat um hefur málið tekið nokkrum breytingum í meðförum nefndarinnar. En rétt er að geta þess að þegar meiri hluti nefndarinnar tók ákvörðun um að taka málið út úr nefndinni með afgreiðslu á frumvarpinu þann 4. júní sl. var því mótmælt eindregið af hálfu minni hlutans, sem taldi málið með engu móti fullrætt innan nefndarinnar og taldi að fjöldamörgum spurningum væri enn ósvarað og fara þyrfti betur yfir málið. Þeim sjónarmiðum minni hlutans var hafnað á þeim fundi og segja má að þar hafi skorist í odda um þá málsmeðferð. Meiri hlutinn taldi að málið væri í þannig búningi að hægt væri að klára það en minni hlutinn taldi svo ekki vera. Meiri hlutinn hefur hins vegar tekið málið upp á fleiri fundum eftir að málið var tekið út úr nefndinni og gert breytingar á nefndaráliti sínu og breytingartillögum. Vissulega ber að fagna því að meiri hlutinn hafi talið ástæðu og í verki fallist á það að tilefni væri til að skoða ákveðna þætti málsins nánar. Það er út af fyrir sig jákvætt. Og ég held að sú umræða sem farið hefur fram í nefndinni á undanförnum kannski tveimur vikum hafi verið gagnleg fyrir alla þá aðila sem tóku þátt í henni og orðið til þess að skýra frekar suma þætti málsins, alls ekki alla að mínu mati og minni hluta nefndarinnar en þó orðið til þess að varpa frekara ljósi á málið. Hitt er annað mál að í ljósi þeirrar eftirmeðferðar sem málið hefur fengið af hálfu umhverfisnefndar eftir að málið var tekið út úr henni verður sífellt erfiðara að átta sig á því af hverju málið var tekið út í snarhasti á fundi þann 4. júní því að eins og kemur fram í 5. uppprentun á nefndaráliti meiri hlutans, sem dagsett er 14. júní, hefur þetta tekið töluverðum breytingum frá því sem áður var. Sumt er til bóta, annað finnst mér umhugsunarefni og ég kem kannski nánar að þeim þáttum í sambandi við einstaka þætti á eftir.

Við getum þess, minni hluti umhverfisnefndar, í áliti okkar, við byrjum á því að mótmæla afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpinu og ítrekum að við teljum að athugun málsins og umræðu hafi ekki verið lokið með viðhlítandi hætti. Þau ummæli standa þó að málið hafi fengið betri skoðun eftir fyrstu afgreiðslu af hálfu nefndarinnar. Það er rétt, eins og við getum um í nefndarálitinu og ég ætla ekki að lesa það upp, það er að finna í 2. mgr. álitsins, að af hálfu gesta og umsagnaraðila eru mjög skiptar skoðanir um efni þessa máls og það sem kannski hlýtur að valda okkur nefndarmönnum í umhverfisnefnd og öðrum sem um þetta fjalla mestum vandræðum er þetta, eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Fullyrðingar umsagnaraðila um mikilvæga þætti málsins stangast á og gerði nefndin ekki nægar tilraunir til þess að afla viðbótarupplýsinga þannig að unnt yrði að meta með fullnægjandi hætti hvað rétt sé í þeim efnum.“

Þetta stendur að mínu mati þó að ákveðnir þættir hafi verið upplýstir frekar en ég kem nánar að þeim atriðum á eftir. Síðan segir í nefndaráliti minni hlutans:

„Frumvarpið hefur þann tilgang að innleiða í íslenska löggjöf tilskipun Evrópusambandsins um erfðabreyttar lífverur í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ljóst er að tilskipunin veitir aðildarríkjunum nokkurt svigrúm í sambandi við útfærslu einstakra ákvæða og er að sjálfsögðu mikilvægt að vandað sé til verka í þeim efnum. Ljóst er að útfærslan í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við er með mismunandi hætti en talsvert skortir á að upplýst sé hver sá munur er. Þetta atriði skiptir verulegu máli, enda komu fram fyrir nefndinni bæði fullyrðingar í þá átt að með frumvarpinu væri gengið of skammt miðað við sum nágrannalöndin og að gengið væri of langt.“

Samanburður við önnur lönd er veigamikið atriði í þessu sambandi, ekki síst í ljósi samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og rannsóknastofnana á þessu sviði og möguleikum Íslands á því að byggja upp aukna starfsemi í líftækni, bæði í rannsóknum og iðnaði.

Á þetta vil ég leggja áherslu vegna þess að það er yfirlýst stefna stjórnvalda og ég hygg allra íslenskra stjórnmálaflokka að efla starfsemi á þessu sviði. Það hefur verið horft mjög til líftækni, eins og reyndar annarra greina í sprotastarfsemi hér á landi, að þar væri möguleiki á því að efla íslenskt atvinnulíf með því móti að fjölga störfum, vel launuðum áhugaverðum störfum fyrir fólk með mikla menntun að baki. Þegar samkeppnisstaðan er skoðuð í samanburði við önnur lönd áttum við okkur á því hvar skórinn kreppir og hvar við getum gert betur.

Í sambandi við meðferð þessa frumvarps er ekki hægt að segja að umhverfisnefnd hafi af neinu viti farið yfir það hvernig löggjöf í þessum efnum er háttað í nágrannalöndunum. Við fengum norska lagatexta en ekki frá öðrum löndum sem við hljótum líka að bera okkur saman við. Þetta skiptir máli af því að það var verið að vísa í það af hálfu umsagnaraðila og gesta hvernig hlutirnir væru annars staðar. Sumir sögðu að við værum að ganga allt of langt miðað við nágrannalöndin. Aðrir sögðu að við gengum allt of skammt. Ég veit ekki til þess að kallað hafi verið eftir því eða lagt fyrir nefndina neitt sem gefur okkur upplýsingar í þessu sambandi.

Hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir fór á eigin vegum í ákveðna gagnaöflun í þessu sambandi. Það var hins vegar á síðustu stigum málsins og hún á þakkir skildar fyrir framtak sitt en það verður ekki hægt að segja að nefndin hafi gefið þessum þáttum nægan gaum í störfum sínum.

Í nefndarálitinu komum við inn á nokkra þætti sem við teljum að skoða þurfi betur, m.a. það að við sjáum gagnrýni frá ýmsum aðilum varðandi orðalag frumvarps og textatilskipunarinnar, að orðalagið sé ekki í samræmi við textann. Ég sé í nýjustu útgáfunni af nefndaráliti meiri hlutans að þar hefur verið komið að einhverju leyti til móts við þessar athugasemdir.

Í öðru lagi nefnum við að bent hefur verið á að orðið hafi töluverð þróun í rétti innan Evrópusambandsins á þessu sviði frá því að tilskipunin sem verið er að innleiða var sett fyrir níu árum. Það verður að segjast eins og er að nefndin hafði afar takmarkaðar upplýsingar um það hvernig sú þróun hefur verið.

Í þriðja lagi er atriði sem ég vék að áðan í sambandi við landsrétt annarra ríkja og við látum þá nægja að nefna bara þá þætti frumvarpsins sem eru kannski hvað umdeildastir.

Í fjórða lagi og hitt atriðið sem ég nefndi áðan er spurningin um það hvernig samrýmist frumvarpið þeim markmiðum stjórnvalda að ýta undir þróun rannsókna og nýsköpun og uppbyggingu atvinnustarfsemi á sviði líftækni. Þess vegna var það afstaða okkar, eftir að málið hafði verið til umfjöllunar hjá umhverfisnefnd milli 1. og 2. umr., að það væri nauðsynlegt að málið kæmi inn milli 2. og 3. umr. en ég veit ekki, í ljósi þess samkomulags sem hefur verið gert um lok þingstarfa á morgun, hvort raunhæft er að fara fram á það eða hvort það hefur yfir höfuð nokkra þýðingu. En alla vega er ljóst að þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni var það afstaða okkar að rétt væri að afgreiða ekki málið í vor heldur fresta því til haustsins þannig að betri tími gæfist til að skoða þá þætti sem við teljum að staldra þurfi betur við. Þetta var afstaða okkar og hún stendur þó að það hafi orðið ákveðnar breytingar á nefndaráliti og breytingartillögum meiri hlutans.

Við teljum síðan upp í nefndarálitinu nokkur atriði sem við teljum að geti valdið vandkvæðum í sambandi við túlkun laganna, t.d. í sambandi við hugtakanotkun. Það er komin inn í ákvæði frumvarpsins tilvísun til líffræðilegs fjölbreytileika sem hefur ekki fastmótaða skilgreiningu í íslenskum lögum, og jafnvel þó að í tillögum meiri hlutans sé gerð tilraun til að orða það í lagatextanum, sem auðvitað hefur nokkra þýðingu og birtist m.a. í breytingartillögu 3.a í nefndaráliti meiri hlutans, erum við kannski ekki komin með neitt mjög skýrt mótaða reglu þar.

Sama á við um þá skilgreiningu sem sett er fram varðandi varúðarregluna í 3.d að það er álitamál hversu mikla leiðsögn má fá út úr þeirri reglu, sérstaklega þegar maður veltir fyrir sér hvernig menn ná þeirri vísindalegu fullvissu sem vísað er til í orðskýringunni samkvæmt breytingartillögunni. Það nægir alveg að benda á, ég hygg að jafnvel raunvísindamenn þekki það og hafi bent á það að erfitt geti verið að sýna fram á vísindalega fullvissu fyrir einhverju, og þá er spurning hversu strangar kröfur eru gerðar í því sambandi og við vekjum athygli á því. Þó að við hyggjumst ekki gera stóran ágreining um þetta atriði sérstaklega vekjum við athygli á því að þetta geti valdið vandkvæðum í framkvæmd einkum ef um er að ræða mjög stífa eða stranga túlkun á þessu ákvæði.

Það er vissulega rétt að hugtökin líffræðilegur fjölbreytileiki og raunar varúðarreglan líka eru liður í alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland á aðild að. Það breytir því hins vegar ekki að það getur verið erfitt. Við þekkjum það að alþjóðlegar yfirlýsingar og sáttmálar eru stundum orðaðir með tiltölulega almennum hætti sem getur verið erfitt að framfylgja með lögum. Þegar kemur að því að útfæra þetta og framfylgja með lögum getur verið erfitt að byggja á þeim almennu og mjög oft opnu skilgreiningum sem felast í hinum alþjóðlegu yfirlýsingum. Auðvitað er ákveðin ástæða til að ætla að ströng túlkun á þessum opnu hugtökum geti valdið vandkvæðum fyrir þá aðila sem þurfa að sækja um leyfi og annað slíkt eftir þeim reglum sem hér er verið að setja.

Til að stytta mál mitt ætla ég aðeins að nefna eitt atriði sérstaklega í viðbót sem varðar reyndar þrjá þætti í frumvarpinu. Það eru atriði sem varða svona ákveðin vandamál sem leyst eru af hálfu meiri hlutans í sambandi við breytingartillögurnar með því að veita ráðherra reglugerðarheimild. Þarna er um að ræða breytingarnar sem varða t.d. 6. gr. Í tillögum meiri hlutans segir:

„Við 6. gr. bætist nýr liður sem orðist svo: Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um fullnægjandi tálmanir sem hindra að slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur, líffræðilega fjölbreytni eða umhverfið.“

Þetta er eitt. Þarna vorum við að fást við þetta og sáum kannski ekki í fljótu bragði augljósa lausn í störfum umhverfisnefndar en þarna er þessu vísað alfarið til ráðherra að finna lausnina.

Í annan stað er það atriði í 10. breytingartillögu meiri hlutans, breytingartillögu við 15. gr. þar sem fjallað er um samráð við almenning o.fl. Þar segir í textanum:

„Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um fyrirkomulag samráðs og funda, t.d. tímafresti o.fl.“

Þarna staldra ég og við í minni hlutanum kannski helst við tímafrestina. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að í lagatexta sé endanlega útfært allt sem varðar framkvæmd funda af þessu tagi, en ég velti hins vegar fyrir mér hvort tímafrestir og annað séu ekki þess eðlis að kveða þyrfti á um það í lagatextanum. Mér er kunnugt um að t.d. umhverfisráðuneytið er annarrar skoðunar og telur að þetta sé í samræmi við það sem annars staðar gerist, en ég held að í ljósi þess og í ljósi ákveðinnar umræðu sem við höfum tekið um tímafresti í sambandi við málsmeðferð hjá stjórnvöldum, m.a. á sviði umhverfismála, væri til bóta ef þarna væri fjallað um tímafrest í lagatextanum.

Loks ætla ég að nefna eitt atriði og það varðar 14. gr. frumvarpsins sem lýtur að gjaldtökuheimild, lýtur að heimild Umhverfisstofnunar til að krefjast endurgreiðslu á kostnaði sem stofnunin verður fyrir vegna sérstakra rannsókna, úttekta eða kynningar. Þarna viljum við árétta af hálfu minni hlutans að við teljum fulla ástæðu til að hafa þessa heimild stofnunarinnar afmarkaða með skýrari hætti þannig að hún hafi ekki sjálfdæmi um þessa gjaldtöku. Ég heyrði í framsöguræðu hv. formanns umhverfisnefndar að hún lagði áherslu á mikilvægi þess að þarna væri um að ræða gagnsæi og slíkt og ég tek eindregið undir það. Ég átta mig hins vegar ekki á því í fljótu bragði hvernig það kemur fram í breytingartillögunum eða lagatextanum. En ég tek eindregið undir það markmið sem kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar, Ólínu Þorvarðardóttur, að það væri mikilvægt að þarna væri um gagnsæi að ræða þannig að þeir aðilar sem sækja um leyfi geti fyrir fram gert sér glögga mynd af því við hvaða kostnaði þeir megi búast áður en ferlið fer af stað.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti. Þarna er um að ræða atriði sem eru kannski ekki svo stór í heildarsamhenginu, þ.e. þarna er fyrst og fremst um að ræða, við höfum séð það í umsögnum frá hagsmunaaðilum og fleirum, að það koma fram áhyggjur af því að með breytingum sem felast í frumvarpinu sé verið að opna á það að þeir þurfi að sæta strangari túlkun en áður. Ég hygg að með því að fara þá leið sem við í minni hluta umhverfisnefndar lögðum upp með í upphafi, að kæla málið niður ef svo má segja nú í vor og fresta afgreiðslu þess fram á haustið, hefði verið unnt að ná lendingu í a.m.k. talsvert fleiri af þeim álitamálum sem hér eru uppi. En það er vilji meiri hluta umhverfisnefndar að málið hljóti afgreiðslu nú og það liggur þá líka ljóst fyrir að það er í andstöðu við minni hlutann.