138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara örstutt. Það er rétt sem hv. þm. og formaður umhverfisnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, getur um að við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson stóðum að afgreiðslu sambærilegs máls úr umhverfisnefnd í fyrrasumar þegar var verið að afgreiða með þó nokkru hraði fjöldamörg mál af því að menn héldu á þeim tíma að verið væri að efna til stutts sumarþings. Ég man ekki dagsetningarnar í þessu sambandi. En hitt er annað mál og ég játa það fúslega að ég hefði átt að kynna mér málið betur þá. Ég játa það fúslega. Þess vegna var ég staðráðinn í að láta þau mistök ekki endurtaka sig núna.

En varðandi málsmeðferðina þá hef ég aldrei orðið vitni að því áður í störfum þingsins að eitt mál sé jafnoft tekið út úr einni nefnd í sömu umræðu. Almenna reglan eins og ég hef kynnst störfum þingsins er sú að þegar mál eru tekin út úr nefnd þá er umfjöllun þeirra í nefndinni lokið, þ.e. mál eru ekki tekin út úr nefnd fyrr en umfjöllun er lokið. Síðan er sá möguleiki að taka mál aftur inn til nefndar milli 2. og 3. umr. ef frekari breytingar hafa átt sér stað. Ég er alls ekki að gagnrýna hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að hafa tekið málið fyrir á nokkrum fundum eftir úttekt málsins, ég er ekki að gagnrýna hana fyrir það. Það eru harla óvenjuleg vinnubrögð en það er ágætt og upplýsti málið í þessu tilviki. Það sýnir að það var fullkomlega ótímabært að lýsa umfjöllun um málið lokið þann 4. júní þegar endanlegt nefndarálit meiri hlutans birtist ekki fyrr en 10 dögum síðar.