138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[21:04]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur. Mig langaði bara að segja frá því að í sjálfu sér hefði ég getað verið á hvoru nefndaráliti sem er, þ.e. bæði meirihluta- og minnihlutaálitinu. Ég er þeirrar skoðunar að þegar frumvarpið kom inn í þingið og til nefndarinnar hafi það ekki verið nægilega gott. Það sem mér þótti aðallega óþægilegt var að þar voru nokkur mjög gildishlaðin hugtök sem ég gat ekki og hef ekki enn fundið í tilskipun Evrópusambandsins sem er verið að leiða í lög með þessu frumvarpi.

Frumvarpið hefur lagast mjög mikið að mínu mati með hugtakaskýringum en ég vil þó hafa þann vara á að nefndin hafði ekki tök á að ræða skýringarnar neitt sérstaklega. Þær eru að vissu leyti alþjóðlegar, að vissu leyti staðlaðar íslenskar en þó ekki alveg og eftir því sem bestu fagmenn segja mér ber að íhuga vandlega hvernig svona gildishlaðin hugtök eins og um ræðir séu fléttuð inn í lög. En vissulega hefur frumvarpið tekið miklum breytingum til batnaðar eins og ég vildi segja og ég tel mjög mikilvægt að við sjáum til þess að líftækniiðnaðurinn fái að þróast á Íslandi. Að sjálfsögðu gætum við fyllsta öryggis. Það er mjög mikilvægt að við gætum fyllsta öryggis en ég frábið okkur að vera með mikið trúarofstæki í þeim efnum. Vísindamenn hafa hvorki getað sannað né afsannað hættuna af erfðabreyttum lífverum. Ég leyfi mér í því sambandi að vísa í samtal sem ég átti við Svein Runólfsson landgræðslustjóra sem sagði að þetta væri mikill happafengur fyrir starfið fyrir austan í Gunnarsholti og það væri ekki nokkur ástæða til að hafa áhyggjur af ræktun á bygginu sem þar fer fram. Svo lýsti hann því fyrir mér og ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Við verðum að átta okkur á því að líftækniiðnaðurinn getur skapað fjöldamörg hátæknistörf fyrir hámenntað fólk út um allt land og við megum ekki setja þannig hindranir inn í frumvörp að það verði ógerningur fyrir þessi fyrirtæki að átta sig á því hvort þau geti yfirleitt fótað sig hér á landi. Það er ekki hlutverk löggjafans að standa þannig að málum. Við verðum að setja skýran ramma þannig að leyfisveitingarvaldið viti hvernig það eigi að taka á umsóknum sem til þess koma, þ.e. Umhverfisstofnun. Við eigum að stuðla að því að líftækniiðnaðurinn fái blómstrað á Íslandi. Við eigum að vera með skýrar reglur. Við eigum ekki að setja óþarfar, óútskýranlegar hindranir inn í frumvörp sem þetta.

Ég ítreka enn og aftur, frumvarpið hefur tekið miklum bótum og ég tel að ekki líði á löngu þar til við þurfum að endurskoða lög um erfðabreyttar lífverur og það vonandi strax á næsta ári.