138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[21:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Ég er á nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar. Það vildi svo skemmtilega til eins og oft áður að umhverfisnefnd klofnaði í afstöðu sinni og má fyrst og fremst rekja það til þess að vinnubrögðin eru eins og við þekkjum í þinginu, svona í flestum málum. Nefndin fékk til sín marga gesti og sýndist sitt hverjum. Margir eru alfarið á móti þessum breytingum og lögunum af því að þetta fjallar um sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera.

Hér á landi eru starfandi fyrirtæki sem skapa mikinn gjaldeyri fyrir þjóðina og eru komin af stað með rekstur. Þetta mál hefur mikið að segja fyrir þau því að afurðin sem út úr þessu kemur nýtist til lyfjaframleiðslu og annarra slíkra hluta. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur hér á Íslandi, þrátt fyrir að landið okkar sé eyja, að taka fullan þátt í þeirri þróun sem á sér stað í heiminum og þá sérstaklega í Evrópu. Þetta snýr að því að við verðum með sambærilegar kröfur og hið títtnefnda Evrópusamband, því að þetta byggist fyrst og fremst á tilskipun og reglugerð frá Evrópusambandinu. Þetta frumvarp er reyndar ekki bein þýðing á Evróputilskipunum og reglugerðum heldur eru gerðar meiri kröfur, og það hefur verið svo í gegnum tíðina, þegar um er að ræða umhverfismál hér á landi en Evrópulöggjöfin segir til um. Það er gott vegna staðsetningar landsins og einangrunar eyjunnar sem við búum á en oft og tíðum er gengið of langt í þeim efnum, alla vega að mati þeirra sem eiga í hlut.

Ég sagði á nefndarfundi að mér þætti Umhverfisstofnun vera orðin ansi valdamikil stofnun. Hún sér um starfsleyfi og annað sem að rekstri lýtur og snýr að umhverfismálum og þeim rekstri sem þarf að ná markmiðum ýmissa laga. Ég er flutningsmaður á minnihlutaáliti umhverfisnefndar ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, eins og komið hefur fram í umræðunni, og hafa þeir báðir farið yfir málið. Í upphafi nefndarálitsins segir, með leyfi forseta:

„Minni hluti umhverfisnefndar mótmælir afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpi þessu og telur að athugun málsins og umræðu innan nefndarinnar hafi alls ekki verið lokið með viðhlítandi hætti. Málið var fyrst afgreitt frá nefndinni í miklum flýti og þótt málið hafi síðar verið tekið aftur til skoðunar er mörgum spurningum enn ósvarað og fyrir hendi ýmis álitaefni sem ekki hafa verið leidd til lykta.“

Það vildi þannig til, frú forseti, að við í minni hlutanum vorum ekki bara á þessari skoðun heldur var áberandi að stjórnarflokkarnir voru ekki samstiga í málinu. Það segir kannski sitt að Vinstri grænir eru umhverfisflokkur en eins og um mörg önnur mál í þinginu keyrði Samfylkingin það áfram. Vinstri grænir fljóta síðan með þrátt fyrir örlítil mótmæli oft og tíðum en yfirleitt gefa þeir eftir.

Í nefndinni var mikil umræða um eitt orð, um það lögfræðilega úrlausnarefni hvað hugtakið veggur þýðir, því að þarna var komið inn í frumvarpið að til þess að mega sleppa og dreifa erfðabreyttum lífverum þyrfti að vera veggur í kringum þá ræktun. Ég fékk spurningu utan úr bæ sem laut að því hvort gróðurhús teldist veggur í lögfræðilegum skilningi og þá benti ég á að það færi eftir því hvort það hugtak væri túlkað þröngt eða vítt. Þessu var breytt á þann hátt að það var rýmkað. Eins og ég sagði áðan var Umhverfisstofnun gefin ákveðin valdheimild til að hafa samráð við almenning og eftir því sem við á tiltekna hópa um alla þætti fyrirhugaðrar sleppingar, dreifingar eða markaðssetningar.

Annað sem við ræddum í umhverfisnefnd var orðanotkunin líffræðileg fjölbreytni, sjálfbær þróun, varúðarregla. Það hefur verið lenska hér á landi að vísa í þessi hugtök sem enginn veit nákvæmlega hvað þýða. Í íslenskri löggjöf hafa þau verið þýdd á mismunandi hátt þannig að það er alltaf verið að vísa í eitthvað sem áður hefur verið gert. Upphaflega var vísað í erlenda lagatexta. Raunverulega hefur varúðarreglan aldrei verið skilgreind almennilega en í ýmsum lögum er vísað í hana og hún svo skilgreind á mismunandi hátt. Það er komin skilgreining samkvæmt íslenskum rétti eða málnotkun á sjálfbærri þróun í staðardagskrá og hún hefur verið notuð í löggjöf undanfarið. Nú eru settar þarna inn skilgreiningar og held ég að það sé vel, því að þá vita þeir aðilar sem eru í rekstri og ætla að hefja rekstur á grundvelli þessara laga að hverju þeir ganga. Þá er skilgreining í breytingartillögum meiri hlutans að hugtakið líffræðileg fjölbreytni nái til allrar lifandi náttúru, eininganna sem hún er gerð úr og birtingarforma hennar o.s.frv. Varúðarreglan er einnig komin inn í lagatexta.

Það er svo sem óþarft að eyða tíma þingsins í þetta öllu meir. Ég vildi koma þessu að og hnykkja á því enn og aftur að eftir stendur, eftir vinnu við þetta mál í umhverfisnefnd, að ég hvet meiri hlutann til þess að breyta vinnubrögðum sínum í takt við vinnubrögð allsherjarnefndar í vinnunni um stjórnlagaþing. Það sjá náttúrlega allir að svona vinnubrögð ganga ekki. Mál eru drifin inn í nefndir og rifin út úr þeim aftur í ósætti við nefndarmenn og þá álitsgjafa sem koma og eru þingmönnum til ráðgjafar. Lítið er hlustað og asinn er slíkur að svo virðist vera að meiri hlutinn sé tekinn fram fyrir sáttina og er það miður. Það hafa orðið tíðar mannabreytingar í umhverfisnefnd eins og í allsherjarnefnd — ég ber þær saman af því að ég sit í báðum nefndunum — og það gerir þetta kannski enn verra að þegar sífellt er skipt um formenn og varaformenn í nefndunum byggist upp mikið óöryggi. Þeir aðilar sem stjórna nefndunum þurfa þá að stóla mikið á t.d. nefndasviðið og ritara nefndanna. Málin verða náttúrlega alltaf fyrst og fremst að vera á forræði hins pólitíska afls, sem hefur á Íslandi í gegnum árin verið meiri hluti á móti minni hluta með örfáum undantekningum. Það er von mín, frú forseti, að á haustþingi breytist þessi vinnubrögð, að við þingmenn höfum þá meiri tíma til að fjalla um málin og að ríkisstjórnin færist ekki of mikið í fang eins og hún hefur gert. Eins og ég hef bent á áður stríðir sú lagasetning sem hefur verið viðhöfð oft gegn öðrum lögum og stjórnarskrá. Það er því einlæg ósk mín að meiri hlutinn taki þessi orð til sín.