138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands .

375. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum, svokölluðum siðareglum fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins og fyrir almenna ríkisstarfsmenn. Með þessu frumvarpi er lagt til að lögfest verði umgjörð um siðareglur fyrir ráðherra, starfsmenn Stjórnarráðs Íslands og fyrir almenna ríkisstarfsmenn. Sett verði á fót samhæfingarnefnd sem hafi það hlutverk að stuðla að því að siðareglurnar nái fram að ganga. Frumvarpinu er ætlað að ná til allra starfsmanna ríkisins hvort sem þeir starfa hjá Stjórnarráðinu eða öðrum stofnunum ríkisins.

Athygli nefndarinnar var vakin á því í umfjölluninni að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins taka einungis til þeirra sem hafa verið ráðnir til lengri tíma en eins mánaðar og hafa starfið að aðalstarfi en ekki þeirra sem eru í hlutastarfi. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að gert er ráð fyrir að þær siðareglur sem fjármálaráðherra staðfestir samkvæmt frumvarpinu verði mjög almenns eðlis og enn fremur er gert ráð fyrir að hver stofnun setji sér sértækari siðareglur.

Ég ætla ekki að lesa upp allt nefndarálitið enda liggur það hér fyrir en vil taka það fram að meiri hlutinn telur mikilvægt að markmið frumvarpsins um bætt siðferði í opinberri stjórnsýslu nái fram að ganga og telur nauðsynlegt að hafa viðmiðunarreglur um siðferðilega framgöngu í starfi eins og lagt er til í frumvarpinu. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að tryggð verði samhæfing milli ólíkra aðila innan stjórnkerfisins og gegnir fyrrnefnd samhæfingarnefnd þar stóru hlutverki. Engu að síður telur meiri hlutinn nauðsynlegt að virkja siðareglurnar með því að efla fræðslu og samhæfingu fyrir þá sem falla undir lögin og þannig verði unnt að bæta vinnubrögð stjórnsýslunnar og auka gæði og skilvirkni hennar. Meiri hlutinn telur að frumvarpið sé mikilvægt skref í þeirri viðleitni að endurreisa traust og virðingu á stjórnsýslunni.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum að 5., 7., 8. og 9. gr. falli brott.

Undir þetta rita auk undirritaðs hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Ögmundur Jónasson, Valgerður Bjarnadóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir.