138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[22:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum afskaplega gott mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, þar sem markmiðið er að setja siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins. Það getur enginn verið á móti þessu, það er alveg á hreinu. Hins vegar er spurningin: Hvað gefur það?

Mér finnst að menn í stjórnunarstörfum þurfi alltaf af og til að spyrja sig: Er ég að gera rétt? Ég er ansi hræddur um að margir gleymi því. Það skiptir engu máli hversu margar og góðar siðareglur við setjum, ef menn gæta ekki að því að spyrja sig öðru hverju hvort þeir séu að gera rétt fara þeir hugsanlega að gera rangt. Margir sem starfa hjá ríkinu, sérstaklega í úrskurðarstörfum, taka ákvarðanir fyrir venjulegt fólk, hverjir megi fá sumarbústað og hverjir megi fá þetta og hitt. Alls konar ákvarðanir eru teknar. Þeir gætu hugsanlega með tímanum fjarlægst þjóð sína, fjarlægst þetta venjulega fólk sem er með miklu lægri laun, á í miklu harðari lífsbaráttu, er ómenntað og alltaf í einhverju basli. Það getur vel verið að þeir hafi fínar siðareglur en það dugar ekki í samskiptum við fólk sem er í allt annarri stöðu.

Þess vegna finnst mér þetta frumvarp, eins gott og það er, bara vera ákveðin friðþæging. Nú erum við búin að setja okkur siðareglur og þá getum við haldið áfram að gera bara nákvæmlega það sama og hingað til. Í starfi mínu hjá ÖSE hef ég dvalið á fimm stjörnu hóteli, afskaplega flottu og glæsilegu, borðað ríkulegan mat í veislum og fjallað um kjör fátæks fólks. Þá er ég að tala um alvöru fátæks fólks. Við fjöllum um kjör minnihlutahópa eins og sígauna, sem eru hundeltir og spottaðir úti um allt. Við fjöllum um kjör þeirra sem lenda í mansali. Mér finnst þetta vera mótsögn, frú forseti, ég get ekki að því gert. Það getur vel verið að við höfum fínar siðareglur en þegar menn átta sig ekki á raunveruleikanum og sjá ekki gjána sem er á milli þeirra og hinna sem þeir fjalla um á fínum fundum í fínum höllum, þá duga ekki hinar bestu siðareglur.

Það var þetta sem ég vildi leggja áherslu á en ég styð þetta mál að sjálfsögðu. Þetta er góð friðþæging og nú getum við sagt að við séum búin að setja siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands.