138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég fór aðeins yfir það í ræðunni að þetta eru röksemdir stjórnarliða. Svarið er einfalt, það breytist ekki neitt við að setja í þennan sjóð. Í versta falli erum við með hina deildina sem við skildum eftir og getum því miður ekki bara horft til framtíðar. Við þurfum að loka því máli. Þar hafa stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar deilt mjög mikið. Ég þarf ekki að rifja upp Icesave-málið. Sem betur fer felldi þjóðin þau lög sem stjórnarliðar fóru fram með þar. Ef þau hefðu verið samþykkt væri svo sannarlega útilokað annað en að við þyrftum að greiða gríðarlega háar fjárhæðir inn í þessa gjaldþrota deild. Ef við viljum hækka iðgjaldið og greiða hraðar inn getum við gert það. Við þurfum bara að breyta þeim þætti laganna. Við ráðum því alveg, virðulegi forseti, en að taka upp þá tilskipun sem er ekki einu sinni komin inn í EES-samninginn er svolítið meira í lagt. Við erum ekki komin með neina niðurstöðu í þennan gamla sjóð og þó að sjóðsmyndunin sé hraðari en hún hefur verið erum við alveg búin að reikna út að það hefur ekkert í þessa vernd að gera. Við vitum það. Ef við erum neydd til þess af Evrópusambandinu að taka það upp með þessum hætti erum við með skuldbindingar fram í hið óendanlega og þá væri kannski hreinna að greiða áfram í þessa hít sem væri gjaldþrota deildin.