138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[23:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Mín skoðun á þessu máli er sú að óbreytt staða sé verri en sú sem lögð er til í þessu frumvarpi. Óbreytt staða með gjaldþrota sjóð sem safnar litlum peningum er verri en nýr sjóður sem fer að safna peningum og getur tekið lán byggt á framtíðarfjárstreymi.

Mér þykir líka eilítið skrýtið þegar sjálfstæðismenn fara í andsvör og flytja ræður og kvarta yfir því að hér sé ýjað að því að hér sé ríkisábyrgð og vilja fá skýr svör um hvort það eigi að vera ríkisábyrgð eða ekki. En bíðum við, ef ekkert er gert, ef enginn sjóður verður til og við byrjum ekki að safna peningum til að standa á bak við innstæður, sitjum við uppi með það að enn þá lengur verður 100% ríkisábyrgð á öllum innstæðum (Gripið fram í.) þannig að ef menn vilja ekki hafa ríkisábyrgð hljóta menn að horfa til þess að fara að leysa vandamálin með einhverjum hætti. Hér er komin lausn á borðið.

Ef ríkisábyrgð á innstæður er ekki hluti af framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins hljóta sjálfstæðismenn að vilja sjá einhverjar breytingar, að menn fari að safna í nýjan sjóð, horfa alvarlega á sjóðsmyndun.