138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[23:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta andsvar hv. þingmanns hræddi mig mjög og sannfærði mig um að það verður að berjast með oddi og egg gegn þessu frumvarpi.

Við erum með þrjá viðskiptabanka sem eru með 80% af innstæðum. Það er alveg ljóst að þessi sjóður mun aldrei geta varið þá. Það er bara hjóm eitt að tala um að ríkisábyrgð sé eitthvað að fara. Hún er ekkert að fara. Menn geta ekkert sagt, við tókum umræðuna í nefndinni og það liggur alveg fyrir að meiri hlutinn telur að ríkið eigi að koma að málinu því að það verði að fjármagna sjóðinn. Í alversta falli sitjum við þá uppi með tvær gjaldþrota deildir. Það er ekki glæsileg framtíðarsýn.

Við höfum alltaf sagt að þetta vandamál fari ekkert. Málið fer ekki og við erum alveg tilbúin til að gera allt hvað við getum til að finna aðra lausn á því. Við komumst ekki hjá því að eiga samskipti við aðrar þjóðir í tengslum við þetta. Þetta er Evróputilskipun, þetta tengist samningnum við Evrópska efnahagssvæðið, en sá aðili sem getur átt samskipti við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er hæstv. ríkisstjórn Íslands. Það þýðir ekki að gefast upp fyrir verkefninu. Þetta frumvarp er uppgjöf og menn eru að búa til í besta falli falska vernd og ímynda sér að þetta leysi málin. Það gerir það ekki. Stjórnarmeirihlutinn veit þetta, verður að horfast í augu við það og ef þeir gera það getum við unnið okkur út úr þessu, öðruvísi ekki.