138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[00:11]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um þingsályktunartillögu um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Í þessari tillögu er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórn Íslands að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð. Í þessu skyni er gert ráð fyrir að gerð verði sérstök úttekt sem miði að því að afmarka viðfangsefni og undirbúa lagabreytingar, en einnig að litið verði til löggjafar annarra ríkja og reynt að sameina það besta úr þeim til að skapa sérstöðu hér á landi á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. Jafnframt er lagt til að kannaður verði möguleiki á að komið verði á fót alþjóðlegum tjáningarfrelsisverðlaunum á Íslandi.

Með þessari tillögu er þess freistað að bregðast við alþjóðlegri þróun í upplýsingamálum og er það til komið vegna þess að hagsmunum almennings af tjáningarfrelsi og málfrelsi, óháðri upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi stendur ógn af vaxandi tilburðum alþjóðlegra stórfyrirtækja, hagsmunasamtaka og stjórnvalda víða um heim til þess að stýra upplýsingamiðlun með lögsóknum, lögbanni og meiðyrðamálsóknum sem virða engin landamæri. Tryggja þarf að allar upplýsingar sem varða almannahag komist til skila í hefðbundnum farvegi vestrænnar blaðamennsku.

Í greinargerð með þessari tillögu segir að Ísland hafi það einstaka tækifæri núna að taka afgerandi forustu með því að búa til traustvekjandi lagaramma sem væri byggður á bestu löggjöf annarra ríkja. Nefndin telur að skoða þurfi í hvaða mæli Ísland er í aðstöðu til að taka sér leiðandi stöðu í að efla tjáningarfrelsi með þeim hætti að lög nágrannaríkjanna gildi ekki fyrir tölvuvinnslu um upplýsingar ef hún væri vistuð í gagnaveri á Íslandi.

Ég ætla ekki að fjalla um þetta nefndarálit í lengra máli. Mjög ítarleg og vönduð greinargerð í mörgum liðum fylgir þingsályktunartillögunni. Það er skemmst frá því að segja að málið hefur vakið gríðarlega athygli á alþjóðavettvangi. Fjölmargir blaðamenn, fjölmiðlamenn og fréttamenn hafa aflað sér upplýsinga um það hjá flutningsmönnum þessa nefndarálits og er óhætt að fullyrða að þetta mál sé vandað til framgöngu þess. Það geti orðið okkur til mikillar farsældar í framtíðinni auk þess sem hér er einfaldlega verið að bregðast við þeim veruleika að upplýsingamiðlun með nútímatækni er að mörgu leyti orðin sér málaflokkur á svipaðan hátt og umhverfismál. Hin hefðbundnu landamæri gilda ekki og því þarf að bregðast við með einum eða öðrum hætti.

Ég legg það til sem formaður í allsherjarnefnd og flutningsmaður þessa nefndarálits að tillagan verði samþykkt á þessu þingi.