138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórn fiskveiða .

424. mál
[00:29]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp um breytingu á fiskveiðistjórnarlögunum sem við ræðum hér um felur í raun í sér þrjú efnisatriði. Í fyrsta lagi er opnuð almenn heimild til ráðherra að setja takmarkanir fyrir úthlutun á byggðakvótum. Í annan stað er veittur möguleiki á að flytja aflaheimildir sem ráðstafað er á grundvelli laga og reglna um byggðakvóta á milli fiskveiðiára. Þriðja atriðið, sem er hið veigamesta í frumvarpinu, felur í sér heimild til handa ráðherra að grípa inn í ef sú staða kemur upp að fimmtungur eða meira af aflaheimildum innan byggðarlaga kann að verða seldur burtu, vegna fjárhagserfiðleika sjávarútvegsfyrirtækja í byggðarlaginu.

Gallinn við þetta frumvarp er, eins og við mörg sem hæstv. ráðherra hefur flutt, að það felur í sér býsna opnar og almennar heimildir til ráðherrans sem við teljum í minni hlutanum að væri eðlilegra að væri í höndum löggjafans. Þetta er ekki nýmæli í þessum lagasetningum í vetur og við vörum mjög eindregið við þeirri þróun sem þarna hefur orðið.

Þegar við skoðum a-lið 1. gr. verður ekki annað séð en að ætlunin sé að galopna heimild til ráðherrans til þess að fara nokkurn veginn með byggðakvótann að vild. Þetta er mikil afturför. Á sínum tíma tókst mjög góð samstaða í þinginu um breytingar á lögunum sem vörðuðu byggðakvótann. Það gerðist í kjölfar athugasemda sem höfðu borist frá umboðsmanni Alþingis um að það væri misræmi í framkvæmd laganna, það var í raun og veru þannig í lögunum að heilmikið vald var lagt í hendur sveitarfélaga um að fara með þessi mál. Þau framkvæmdu í raun lögin í umboði Alþingis með mismunandi hætti sem olli því að mikill mismunur varð á því hvernig staðið var að úthlutun byggðakvótans og í ljósi þessa var farið í heilmikla endurskoðun á þessu fyrirkomulagi.

Með því að gera þær breytingar sem lagt er til 1. gr. a-liðar væri verið að hverfa mjög til baka til þess ástands sem ríkti áður en þessar lagabreytingar voru gerðar. Þess vegna leggur minni hlutinn til tiltekna breytingu sem felur það í sér að taka inn þann hluta úr greinargerðinni sem nefndur er sem dæmi um hvernig beita ætti þessum lögum. Okkar tillaga er sem sagt sú að þessi heimild til ráðherrans verði gerð þröng og eingöngu miðað við aðstæður sem gætu komið upp og að heimila ekki að úthluta aflaheimildum í formi byggðakvóta til skipa sem fluttar hafa verið meiri aflaheimildir frá en þær heimildir sem til skipanna hafa verið fluttar á tilteknu fiskveiðiári. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. formanns nefndarinnar að hann styðji þessa breytingartillögu og tel raunar að hún sé þá í anda þeirra lögskýringargagna sem getur að líta í greinargerðinni sjálfri.

Í annan stað tökum við undir þá breytingu sem felst í b-lið 1. gr. Sú efnisgrein fjallar í raun um að gefa jákvæða heimild í lögunum um að hægt sé að flytja byggðakvóta milli fiskveiðiára. Það er nauðsynlegt að þessi heimild sé til staðar. Sú staða getur komið upp af ýmsum ástæðum að skip geti ekki nýtt sér allan byggðakvótann sem þeim er úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári og þess vegna er eðlilegt að þau hafi heimild til að færa hann yfir á næsta fiskveiðiár. Almennt talað höfum við slíka heimild í fiskveiðistjórnarlögunum. Illu heilli ákvað Alþingi núna í vetur að þrengja þessar heimildir. Það var mikið skref aftur á bak og ég lít þannig á að breytingin hér sé eins konar viðurkenning á því að það hafi kannski ekki verið alls kostar skynsamleg hugmynd sem gerð var að lögum fyrr í vetur. En aðalatriðið er þá það að hér er verið að gefa skýra lagalega heimild til þess að flytja byggðakvóta á milli ára þannig að sú deila sem hefur verið uppi um hvort þetta sé heimilt ætti þá a.m.k. að vera úr sögunni.

Þýðingarmesta ákvæði frumvarpsins sem við ræðum hérna lýtur að heimild til hæstv. ráðherra um að bregðast við þegar sú hætta skapast að umtalsverður hluti aflaheimilda kunni að verða fluttur úr byggðarlagi vegna fjárhagserfiðleika útgerða. Þetta er raunverulegt og alvarlegt vandamál sem er eðlilegt að löggjafinn láti sig varða. Vinna nefndarinnar hefur að okkar mati í þessu máli verið ítarleg og vönduð og leitt í ljós mikla vankanta á þeirri leið sem farin var í vinnu nefndarinnar með því frumvarpi sem fyrir liggur.

Sú niðurstaða sem meiri hlutinn hefur sammælst um er þó að mati minni hlutans afar hæpin og kann að hafa í för með sér annars konar vandamál. Þess vegna getur minni hlutinn ekki staðið að þeirri afgreiðslu. Skynsamlegast væri að okkar mati að fresta afgreiðslu þessa hluta málsins a.m.k. til hausts og freista þess að vinna að því frekar, með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, fjármálastofnunum, Byggðastofnun og sveitarfélögunum.

Undir nefndarálitið rita auk framsögumanns, þess sem hér talar, hv. þm. Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.