138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórn fiskveiða.

468. mál
[00:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sannarlega hefði ég kosið að þingið hefði getað tekið afstöðu til efnisatriða þessa máls. Ég er 1. flutningsmaður málsins ásamt hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni. Hugsunin á bak við frumvarpið er ósköp einföld. Þannig er mál með vexti að allnokkrum aflaheimildum er varið til tilfærslna og millifærslna vegna byggðakvóta, skel- og rækjubóta, línuívilnunar og nú síðast vegna strandveiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að þær fisktegundir sem koma til úthlutunar á grundvelli þessara millifærslna séu eingöngu fjórar, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Eins og málum er háttað núna eru aflaheimildir í þessum fjórum tegundum skertar sem nemur því aflamagni sem fer til ráðstöfunar úr þessum millifærslu- og tilfærslusjóðum eða pottum eins og þeir eru oft kallaðir í daglegu tali. Þetta fyrirkomulag veldur því að skerðing á aflaheimildum þeirra báta sem eru sterkastir í tegundunum fjórum verður hlutfallslega mun meiri en hjá þeim bátum og útgerðum sem hafa tiltölulega minni aflaheimildir í þeim. Ýmsir hafa talið þetta óeðlilegt, þar á meðal við hv. flutningsmenn sem teljum miklu eðlilegra að grundvöllur þess sem menn leggja af mörkum inn í þessar millifærslu- og tilfærsluleiðir sé reiknaður út frá heildarþorskígildum viðkomandi útgerða og skipa. Þar með getum við sagt að byrðin af því að leggja af mörkum inn í þessa millifærslu- og tilfærslusjóði dreifist jafnar á allar útgerðir í landinu.

Auðvitað koma upp ákveðin álitamál í þessu sambandi sem við tökumst á við í frumvarpinu sjálfu, m.a. hvernig beri að bregðast við ef útgerð er í þeirri stöðu að eiga ekki aflaheimildir í þessum fjórum tegundum. Þá er gert ráð fyrir því að viðkomandi útgerð hafi umþóttunartíma um tveggja mánaða skeið til að bæta þar úr, þannig að hún geti þá annaðhvort leigt til sín aflaheimildir í þessu skyni eða orðið sér úti um varanlegar heimildir til að geta staðið straum af þessu í framtíðinni.

Það er alveg ljóst að eftir því sem slíkar millifærslur hafa aukist á undanförnum árum með hækkandi línuívilnun og núna með strandveiðum er þetta farið að hafa heilmikið að segja. Millifærslur í þorski t.d. eru sem svarar 8,3% og það telur sérstaklega hjá þeim útgerðum sem eru háðastar þorskveiðum. Þetta á ekki síst við um minni útgerðir, t.d. krókaaflamarksbátana sem fyrst og fremst hafa aflaheimildir í þorski, ýsu og að einhverju leyti ufsa og steinbít, misjafnt auðvitað eftir svæðum, og þess vegna er þetta farið að taka dálítið í. Ýmsar stærri útgerðir og aðrar útgerðir sem ekki eru með miklar aflaheimildir í þessum tegundum sleppa tiltölulega auðveldlega út úr því að taka þátt í millifærslu- og tilfærslupottunum. Þetta eru eins konar félagsleg úrræði innan sjávarútvegsins, ef við getum sagt sem svo, og þess vegna er ekkert óeðlilegt að allir sem hafa aflaheimildir á annað borð taki þátt í því að standa undir þessu. Þetta frumvarp er lagt fram til að hægt sé að jafna byrðarnar, ef þannig má að orði komast.

Eins og hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og framsögumaður þessa máls, vakti athygli á háttar svo til að nú er að störfum sérstök nefnd sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði. Nefndin er að endurskoða fiskveiðilöggjöfina og búast má við því að hún taki m.a. afstöðu til þeirra álitamála sem frumvarpið tekur á. Það má gera ráð fyrir því að nefndin ljúki störfum áður en Alþingi kemur aftur saman til fundar í byrjun september. Þess vegna er það skynsamlegt sem nefndin komst að niðurstöðu um að málinu yrði vísað til hæstv. ríkisstjórnar með rökstuddri dagskrá þar sem gert yrði ráð fyrir því að ríkisstjórnin fæli nefndinni að taka afstöðu til þessara álitamála og notaði þetta frumvarp sem eins konar gagn í því máli.

Ég vil að lokum þakka kærlega fyrir góðar óskir og þakkir hv. formanns nefndarinnar og enn fremur segja að samstarf okkar í nefndinni hefur verið mjög gott. Ég tel að hv. formaður hafi lagt sig fram um að vanda vinnu nefndarinnar. Ég hef verið ákaflega ósáttur við mjög margt af því sem við höfum fjallað um en ég hef hins vegar ekki verið ósáttur við vinnubrögð hv. formanns og fyrir það vil ég þakka.