138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[01:38]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Ég hef oft og tíðum dáðst að sögu Framsóknarflokksins og Jónasi frá Hriflu þó að hann hafi ekki verið kennifaðir minn í stjórnmálum.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ég tel mér það skylt að koma hér upp og ræða það frumvarp sem hér liggur fyrir með áorðnum breytingum sem allsherjarnefnd leggur til um skipan stjórnlagaþings. Þær breytingar sem allsherjarnefnd leggur til eru til bóta en það breytir ekki afstöðu minni í þessu máli og ég tel að hér sé þingheimur á villigötum og að hér sé verið að blekkja almenning. Hið ráðgefandi stjórnlagaþing er ekkert annað en sjónarspil til þess að fullnægja metnaði ákveðins stjórnmálamanns, hæstv. forsætisráðherra.

Ég vil ítreka það sem ég sagði við 2. umr. um þetta mál, að ég hefði kosið að hægt væri að ná samstöðu meðal þingmanna um að fara þá sáttaleið sem Njörður P. Njarðvík, einn helsti baráttumaður stjórnlagaþings, lagði til í grein í Fréttablaðinu nýlega. Það er ekki gert. Ég vil einnig benda á það sem Sigurður Líndal prófessor segir í viðtali við vefritið Pressuna í dag þar sem hann segir og fullyrðir að það sé engin þörf á því að rita nýja stjórnarskrá líkt og reynt er að telja almenningi trú um. Hann bendir á að stjórnarskránni hafi mikið verið breytt í gegnum tíðina og t.d. sé mannréttindakaflinn allur frá árinu 1995. Í fyrri ræðu minni benti ég á að af 79 greinum stjórnarskrárinnar hefur 45 verið breytt. (MÁ: Allt í góðu lagi með forsetann?)

Svo ég haldi áfram segir Sigurður … (MÁ: Þú svarar ekki …) Stundum á maður ekki að svara öllu því sem að manni er beint. Sigurður segir að Íslendingar verði að láta af mörgum ósiðum og fara að fylgja stjórnarskránni. Allt tal um að breytt stjórnarskrá muni breyta Íslandi í einu vetfangi sé ekki á rökum reist. Sigurður segir að hugsanlega megi setja á fót stjórnlagadómstól til að tryggja betri framkvæmd stjórnarskrárinnar. Þetta eru orð sem eru sögð af manni sem þekkir líklegast betur til þessara mála en margir er hér sitja inni. Þetta eru orð sem ég tek undir. Ég tel að hér sé verið að blekkja almenning, það er verið að búa hér til sjónarspil. Þetta er frumvarp sem ég tel að þingmenn eigi ekki að samþykkja.