138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki að orð mín hljómi þannig að ég telji að í þessum stofnanastrúktúr megi engu breyta. Það má mjög vel hugsa sér breytingar á fyrirkomulagi þeirra stofnana sem hér um ræðir, verkaskiptingu með aukinni samvinnu eða annað þess háttar. Mér finnst hins vegar dálítið sérstakt þegar lagt er fram frumvarp sem byggir á jafnmörgum lausum endum og þetta gerir. Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að verkaskipting og verkefni Varnarmálastofnunar færist til stofnana sem munu verða hluti af hinu væntanlega innanríkisráðuneyti. Hins vegar veit enginn hvenær það kemur og hvort. Það má því segja að hér kristallist það hvað farið er tilviljanakennt í hlutina án þess að fyrir liggi heildarstefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar um það hvernig bæði stofnanastrúktúr og verkaskipting á að vera. Það eru teknir bútar hér og þar og eitthvað á að gerast. Ég efast um að mikill árangur náist í hagræðingu eða einhverri skynsamlegri verkaskiptingu ef farið er í hlutina með þessum hætti. Ég leyfi mér að halda því fram að orsökin fyrir því að Varnarmálastofnun verði lögð niður eigi sér miklu frekar pólitískar rætur en einhverja hvöt til að hagræða eða haga þessum málum með skynsamlegum hætti. Ég held að hér séu einhverjar pólitískar, jafnvel flokkspólitískar, ástæður að baki.