138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um það hvort hér séu á ferðinni stefnumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sérstaklega, þá er það alveg ljóst að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði mjög ákveðnar skoðanir þegar varnarmálalögin voru sett og Varnarmálastofnun var sett á laggirnar. Mig minnir að sjónarmið ýmissa frammámanna í Sjálfstæðisflokknum hafi satt að segja verið á þá lund líka að ekki ætti að setja þessa stofnun á laggirnar með þeim kostnaði sem því fylgdi. Þetta var engu að síður gert. Ég vonast til þess að hv. þingmaður sé ekki undrandi yfir því þó einhver stefnumála annars af tveimur stjórnarflokkum rati inn í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. Það getur varla verið nein nýlunda eða ný bóla.

Hvað þetta atriði varðar sem þingmaðurinn nefndi, ég hafði orð á því að meta þyrfti hvort leggja mætti niður verkefni og setti það í samhengi við varnarskuldbindingar Íslands, þá vil ég einfaldlega minna á það sem komið hefur fram í máli hæstv. utanríkisráðherra og kom fram í vinnslu nefndarinnar að það stendur til að setja á laggirnar þverpólitískan starfshóp í haust til að móta nýja öryggis- og varnarstefnu fyrir Ísland. Að sjálfsögðu verður þá farið í kjölinn á því hvort ástæða sé til að leggja einhver verkefni af. Ég vísa einungis í þessa vinnu sem fram undan er við stefnumótun í varnar- og öryggismálum. Þá vil ég minna á að það er reyndar loforð, sem tvær fyrrverandi ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að, gáfu en stóðu ekki við en nú stendur til að efna.