138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum. Fyrsti minni hluti gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirliggjandi frumvarp. Markmiðið með breytingunum er í hæsta máta óskýrt og verklag og undirbúningur málsins getur engan veginn talist samræmast vönduðum stjórnsýsluháttum. 1. minni hluti telur ekki útilokað fyrir fram, og vill alls ekki gera það, að hægt sé að ná fram aukinni hagræðingu eða bættu skipulagi á verkefnum sem tengjast vörnum og öryggi landsins. En því verður að mótmæla harðlega að vinnulag sé með þeim hætti sem hér er kynnt því að þau áform sem felast í frumvarpinu sem kveða á um að veita utanríkisráðherra heimild til að færa varnar- og öryggistengd verkefni til annarra stofnana án þess að skýrt liggi fyrir hvaða stofnanir þetta eru, gengur engan veginn upp.

Það kemur hvergi fram hvernig þetta skuli framkvæmt og eins og komið hefur fram í andsvörum við hv. formann utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðsson, er óskýrt hver ávinningurinn með breytingunum er.

Í grunninn snúast athugasemdir 1. minni hluta utanríkismálanefndar um að það sé óásættanlegt að framkvæmdarvaldið tefli fram máli á Alþingi um að leggja niður stofnun en svara því ekki um leið hvert eigi að ráðstafa verkefnunum. Ef þingið lætur það yfir sig ganga er komið upp ástand sem felur það í sér að framkvæmdarvaldið getur í raun og veru fengið óútfylltan tékka frá þinginu, en þinginu ber skylda til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er eitt lykilhlutverk þingsins. Þegar lögin um Varnarmálastofnun voru samþykkt var auðvitað skýrt hvert hlutverk stofnunarinnar ætti að vera og þess vegna verður að vera skýrt hvert verkefnin eiga að flytjast vilji menn leggja stofnunina niður.

Í athugasemdum með frumvarpinu eru breytingarnar tengdar við væntanlega stofnun innanríkisráðuneytis og endurskipulagningu á stofnunum sem vænst er að fylgi í kjölfar hins nýja ráðuneytis. Hér bendir 1. minni hlutinn einfaldlega á það að verið er að gera hlutina í rangri röð. Ef því fylgja einhver ný tækifæri að stofna innanríkisráðuneyti, einhver tækifæri til að ná fram hagræðingu eða breyttu verklagi hvað varðar varnar- og öryggistengd mál er rétt að koma á fót viðkomandi ráðuneyti áður en ráðist er í hagræðingarverkefnið. Þetta hlýtur að segja sig sjálft.

Það er rétt að rifja upp að það eru ekki nema tvö ár síðan Alþingi setti varnarmálalög og kom verkefnum er varða öryggis- og varnarmál Íslands fyrir í nýrri Varnarmálastofnun. Samkvæmt frumvarpinu sem nú liggur fyrir er ekki áformað að gera efnislegar breytingar á varnar- og öryggisskuldbindingum Íslands og verkefnum sem af þessum skuldbindingum leiðir heldur beinist frumvarpið að stjórnsýslulegri vistun þeirra verkefna sem við niðurlagningu Varnarmálastofnunar færast til annarra stofnana. Það vekur furðu að í frumvarpinu segir ekkert um hvert flytja skuli verkefnin eins og ég hef áður tekið fram. Í nefndaráliti meiri hlutans er gert lítið úr óvissunni um þetta atriði, hvert verkefni Varnarmálastofnunar verða flutt. Tvær stofnanir sem við höfum heyrt minnst á í umræðunni, þ.e. embætti ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan, eru fyrst og fremst tilgreindar sem helstu viðtakendur þeirra verkefna. Af því tilefni er rétt að rifja upp að eitt helsta markmið varnarmálalaganna sem sett voru fyrir tveimur árum var einmitt að tryggja aðskilnað varnartengdra verkefna frá öðrum innlendum verkefnum og voru Landhelgisgæsla og lögregla tilgreind sérstaklega í því sambandi. Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að þeim lögum sagði þannig um verkefni sem snúa að varnarviðbúnaði ríkisins og ytra öryggi þess, með leyfi forseta:

„Einnig er mikilvægt að þau séu af þessum sökum skýrt aðgreind frá öðrum innlendum stjórnsýsluverkefnum. Þetta er sérstaklega mikilvægt í tilviki lögreglu og landhelgisgæslu, sem eru í eðli sínu borgaralegar stofnanir og eiga að njóta trúnaðar sem slíkar. Það er afar mikilvægt fyrir réttaröryggi borgaranna að ekki sé blandað saman almennri löggæslu og störfum að landvörnum. Í okkar heimshluta eru lögreglu ekki falin verkefni er lúta að gæslu ytra öryggis ríkja.“

Það má alveg ræða þau sjónarmið sem þarna stangast svona bersýnilega á í nýja frumvarpinu og því gamla. Það má velta fyrir sér hvort sú stefnumörkun sem mótuð var fyrir tveimur árum hafi endilega verið rétt. En þessi kúvending vekur mikla furðu vegna þess að það er sami stjórnmálaflokkurinn, sama stjórnmálaaflið, sem ræður ríkjum í utanríkisráðuneytinu sem teflir fram þessum tveimur málum með tveggja ára millibili þar sem stefnumörkunin hefur tekið svona miklum breytingum. Það kveður við algjörlega nýjan tón í frumvarpinu því að í athugasemdum með því segir, með leyfi forseta, að „í fyrirhuguðum breytingum felist tækifæri til að samþætta verkefni sem varnarmálalög aðskilja frá hefðbundinni borgaralegri starfsemi á sviði öryggismála á borð við almannavarnir og landhelgisgæslu“. Þá segir í athugasemdunum að framtíðarsýn starfshóps um öryggismál og endurskipulagningu Stjórnarráðsins sé að „eftir endurskipulagningu á verkefnum Landhelgisgæslu Íslands, Vaktstöðvar siglinga og ríkislögreglustjóra fari undirstofnun innanríkisráðuneytis með framkvæmd verkefna á sviði varnar- og öryggismála, þ.m.t. þeirra sem áður voru falin Varnarmálastofnun“. Þessi kúvending frá fyrri sjónarmiðum um trúnað borgaralegra stofnana og ekki síst réttaröryggi borgaranna er ekki studd neinum sérstökum rökum. Eins og áður segir er einkennilegt að sjá tvö frumvörp koma úr sama ráðuneytinu sem stýrt er af sama flokknum, þ.e. Samfylkingunni, sem eru svona innbyrðis ólík um þetta atriði.

Í nefndaráliti 1. minni hluta er rakið hvernig við teljum að verkefnin verði, mörg hver, unnin áfram með sama hætti. Við drögum mjög í efa að þeirri hagræðingu sem oft er minnst á í tengslum við þetta mál verði náð. Þá er auðvitað fyrst til þess að horfa að það er gengið út frá því að öllum starfsmönnum verði boðin störf hjá þeim stofnunum sem verkefnin flytjast til. Þegar horft er til umfangs þeirra verkefna sem Varnarmálastofnun hefur sinnt er engar vísbendingar að finna í málinu um að til standi að draga úr umfanginu. Í þriðja lagi verður ekki annað séð af þeim störfum sem Varnarmálastofnun sinnir en að húsnæðismál stofnunarinnar henti starfseminni ágætlega.

Mig langar líka til að geta þess að það er dálítið einkennilegt hvernig stjórnarflokkarnir hafa haldið á málinu vegna þess að sé tilgangurinn raunverulega sá sem hér hefur verið kynntur, þ.e. að ná fram hagræðingu, einfaldlega að skipuleggja varnar- og öryggismálin þannig að sem minnstu sé kostað til en hvergi gefinn afsláttur af öryggi eða varnarhagsmunum okkar og við uppfyllum allar okkar skuldbindingar, erum við í Sjálfstæðisflokknum að sjálfsögðu tilbúin til viðræðna um slík mál, tilbúin til að ræða ólíkar hugmyndir um hvernig megi ná því markmiði því að sannarlega viljum við ekki kosta meiru til en þörf krefur. Í þessu ljósi verður að harma það sérstaklega að það skuli vera þrýst svo mjög, eins og gert er, á að málið sé afgreitt héðan af þinginu með vísan til þess sem ég hef rakið að það er óljóst hvað tekur við.

Þess er rétt að geta að Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum þar sem fram kemur í athugasemdum að draga skuli úr verkefnum embættis ríkislögreglustjóra. Um þetta hafa orðið nokkur orðaskipti í umræðunum og ég ætla ekki að fara nánar út í það en þetta er atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar lagt er af stað í þessa, ég vil segja óvissuför. Mér finnst jafnframt nauðsynlegt að rifja upp alla umræðuna sem farið hefur fram um nauðsyn vandaðra stjórnsýsluhátta þar sem fagleg og yfirveguð vinnubrögð eru og skulu vera í hávegum höfð. Hér er nærtækt að vísa til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Mér finnst þetta mál ekki bera yfirbragð vandaðra vinnubragða.

Í nefndaráliti meiri hlutans er tekið dæmi af því að embætti ríkislögreglustjóra hafi fyrir daga Varnarmálastofnunar farið með hlutverk sérstaks öryggiseftirlits en aðildarríkjum NATO ber skylda til að starfrækja slíkt eftirlit samkvæmt sérstökum samningi bandalagsríkjanna um upplýsingaöryggi. Öryggiseftirlitið hefur það hlutverk að hafa eftirlit með því hvernig íslenska ríkið framkvæmir og fer með trúnaðarupplýsingar og gögn NATO hérlendis, sem og að framfylgja öryggisreglum bandalagsins. Til þess þarf sérþjálfaða starfsmenn sem þekkja kerfi og staðla NATO til hlítar og tekur sú þjálfun marga mánuði. Fyrir daga Varnarmálastofnunar fór varnarliðið með hluta af öryggiseftirlitinu gagnvart NATO, en ríkislögreglustjóri hafði aðeins takmarkað hlutverk með höndum. Villandi er því að vísa í fyrri reynslu ríkislögreglustjóraembættisins af þessum verkefnum. Það verður að horfa til þess að þau hvíldu að hluta til annars staðar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérstök verkefnastjórn skipuð af utanríkisráðherra taki yfir starfsskyldur forstjóra Varnarmálastofnunar við gildistöku laganna. Eins og formaður utanríkismálanefndar hefur nú gert grein fyrir hefur meiri hluti nefndarinnar ákveðið að tefla fram ákveðnum breytingum á þessu atriði frumvarpsins. Ég vil segja að þær eru mjög til bóta þó að 1. minni hluti telji engu að síður, eins og ég hef hér farið yfir, að málið í heild sinni sé vanhugsað.

Ég vil leyfa mér að vísa að öðru leyti til nefndarálits 1. minni hluta sem liggur hér frammi sem þingskjal 1228. Að lokum vil ég þó segja að utanríkismálanefnd hefði átt að þiggja boð frá Varnarmálastofnun um að koma í heimsókn og kynna sér nánar starfsemi stofnunarinnar áður en þessi afdrifaríka ákvörðun var tekin. Ég tel að það liggi ekkert á að leggja stofnunina niður eins og lögð er svona mikil áhersla á af stjórnarflokkunum, sérstaklega öðrum þeirra. Ég held að flestir átti sig á því hvað er hér á ferðinni. Það sem hér er að gerast er að Vinstri grænir, sem hafa verið á móti þessari stofnun frá upphafi, eru að fá þann þátt stjórnarsáttmálans sem að þeim snýr um utanríkismál, uppfylltan, þ.e. að fá stofnunina lagða niður. Eflaust munum við sjá áherslur á að draga frekar úr áherslu á þau verkefni sem stofnunin hefur sinnt. Eins og þetta blasir við mér þá er þetta gagngjaldið fyrir að styðja það að umsókn verði lögð fram um aðild að Evrópusambandinu. Það er mikið baráttumál Samfylkingarinnar.

Með vísan til alls þess sem ég hef hér rakið og þar sem það er að áliti 1. minni hluta hreinlega fyrir neðan virðingu þingsins að samþykkja lög um að flytja lögbundin verkefni frá stofnun sem á að leggja niður án þess að kveða á um það hvar þeim skuli fundinn staður, og þetta á alveg sérstaklega við þegar um er að ræða viðkvæm og vandasöm verkefni sem varða öryggi ríkisins, leggur 1. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem frumvarp þetta er vanbúið, markmið með breytingunum sem það kveður á um er í hæsta máta óskýrt og verklag og undirbúningur málsins getur engan veginn talist samræmast vönduðum stjórnsýsluháttum samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir þetta nefndarálit skrifar sá sem hér stendur, Bjarni Benediktsson, ásamt með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni.