138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

veiting ríkisborgararéttar.

667. mál
[03:04]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Hér er um að ræða einstaklinga sem hafa af ýmsum ástæðum sótt um undanþágu frá lögum sem þar um gilda, en lögin gera ráð fyrir því að uppfylli einstaklingar ekki skilyrði að mati Útlendingastofnunar eða ríkislögreglustjóra sé þeim unnt að sækja um undanþágu til allsherjarnefndar Alþingis sem hefur tekið jákvætt í umsóknir 35 einstaklinga sem hafa óskað eftir því að gerast íslenskir ríkisborgarar.

Allsherjarnefnd fór yfir þessar umsóknir og naut við það aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnunar. Þeir einstaklingar sem hér um ræðir fá jákvæð svör frá nefndinni vegna þess að þeir ýmist tengjast mjög sterkum fjölskylduböndum við landið ellegar uppfylla ekki lagatæknileg skilyrði til ríkisborgararéttar vegna umferðarlagabrota á borð við hraðasektir eða öxulþungabrot.

Allsherjarnefnd leggur því til að umræddir einstaklingar, 35 talsins, hljóti ríkisborgararétt með samþykkt þessa frumvarps.