138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[03:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Kæri þingheimur. Í dag er merkisdagur í sögu landsins. Við tökum afgerandi afstöðu með tjáningarfrelsi, með upplýsingafrelsi, með málfrelsi í heimi þar sem þessar grunnstoðir heilbrigðs samfélags molna með ægihraði því að upplýsingasamfélagið vex hraðar en löggjöfin sem er víðast hvar úrelt.

Við leggjum hér til að löggjöf er varðar þessi mál verði nútímavædd og um málaflokkinn mynduð heildstæð löggjöf byggð á fyrirmynd sambærilegra laga víðs vegar að þar sem lögin hafa þótt sanna hlutverk sitt. Ég vil þakka innilega öllum þeim þingmönnum sem hafa komið að þessari þingsályktunartillögu og hlakka til að vinna áfram með þeim í framhaldinu að því að þetta verði að veruleika.