138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[03:47]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það dugar einfaldlega ekki að segja þetta mál snúast um einhver stjórnsýsluleg atriði. Við ákveðum með lögum héðan frá Alþingi hvernig stjórnsýslulegum verkefnum er háttað hjá framkvæmdarvaldinu. Í þessu máli er ríkisstjórnin að óska eftir opinni heimild til þess að ráðstafa varnar- og öryggismálum inni í stjórnkerfinu að eigin geðþótta. Sú ákvörðun á að vera tekin af þinginu. Þess vegna hefur það verið málflutningur okkar sjálfstæðismanna í þessu máli að ríkisstjórnin hafi ekki gert nægjanlega vel grein fyrir því hvað stendur til. Þetta leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að best sé að leggja til að málinu verði vísað frá.

Það gerum við með þessari rökstuddu dagskrá þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þar sem frumvarp þetta er vanbúið, markmið með breytingunum sem það kveður á um er í hæsta máta óskýrt og verklag og undirbúningur málsins getur engan veginn talist samræmast vönduðum stjórnsýsluháttum samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“ (Forseti hringir.)

Það væri rétt að gera.