138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:18]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka Eygló Harðardóttur hlý orð í garð nefndarinnar. Ég vil þó segja að þetta er sannarlega ekki endanleg lausn fyrir skuldug heimili enda er það nú þannig í lífinu að endanlegar lausnir eru yfirleitt ekki til á hlutunum. En þetta á að vera varanleg lausn fyrir þau heimili sem eru í hvað verstri stöðu og sem við berum mesta ábyrgð gagnvart því að þar er annars um að ræða alvarlegan velferðarbrest.

Okkur getur þótt ýmislegt um tímasetninguna á þessum ágæta þingfundi en hv. félags- og tryggingamálanefnd hefur nú verið að funda á ýmsum tímum undanfarnar vikur. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur verið vakinn og sofinn yfir skuldavanda heimilanna frá því að hann settist í embætti þannig að ég held að þetta sé bara til marks um að við erum tilbúin til þess að leggja nánast hvað sem er á okkur til að finna góða leið út úr þeim vanda sem við erum í.