138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:23]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka félags- og tryggingamálanefnd góð og mikil störf í umfjöllun um öll þau skuldamál sem komið hafa á dagskrá á undanförnum vikum. Það hefur ekki verið létt verk. Þvert á móti eru þetta flókin mál og hafa þurft mikillar umfjöllunar við. Það er líka sérstök ástæða til þess að þakka þá víðtæku þverpólitísku samstöðu sem náðst hefur í málefnum skuldugra heimila alveg frá því í haust. Við náðum mjög góðri sátt um lagasetninguna í októbermánuði og í kjölfar þeirrar löggjafar var sett á fót þverpólitísk nefnd sem hefur starfað af miklum dugnaði í vetur. Þær hugmyndir sem þar komu fram af hálfu fulltrúa í þeirri nefnd voru auðvitað mikið leiðarljós og innblástur fyrir okkur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í þeirri vinnu sem við settum af stað í kjölfarið. Þeim frumvörpum sem við lögðum fram um lausnir á vanda skuldugra heimila í lok marsmánaðar var ætlað að mæta öllum þeim athugasemdum sem fram hafa komið í þeirri fjölþættu vinnu að frátalinni hinni stærri spurningu sem stundum vakir yfir, sem er spurningin um hvort ráðast beri í almenna niðurfellingu skulda. Öllum öðrum spurningum reyndum við að taka á og fara yfir í þessum frumvörpum.

Í meðferð mála í félags- og tryggingamálanefnd komu fljótlega í ljós athugasemdir frá réttarfarsnefnd, sem hafði miklar athugasemdir við það sem lagt var upp með af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytisins, að fella greiðsluaðlögunarferlið í einn lagabálk að norskri fyrirmynd. Við höfum aðhyllst þá hugsun að greiðsluaðlögunin yrði félagslegt úrræði og um hana gilti einn lagabálkur. Það er ljóst að réttarfarsnefnd hafði ríkan vilja til þess að málunum yrði skipað með öðrum hætti og að áfram yrði byggt á þeirri löggjöf sem sett var hér í fyrra með sérstökum kafla í gjaldþrotaskiptalögunum og með löggjöf um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Eftir nokkurt stímabrak varð niðurstaðan sú að fara þá leið enda fullvissaði réttarfarsnefnd okkur öll um að það mundi ekki hafa efnisleg áhrif á réttindi fólks. Það yrði fyrst og fremst til þess að skapa, að því er réttarfarsnefnd mat, hagfelldari lagalegan búning utan um lausnina en það mundi ekki hafa áhrif á efnislega niðurstöðu að því er varðar réttindi fólks til greiðsluaðlögunar eða þau tækifæri sem við vildum að fólk nyti í greiðsluaðlögunarferlinu.

Nefndin hefur nú unnið mjög mikið og gott starf og við sjáum hið ágæta frumvarp hér fyrir okkur. Atvikin haga því þannig til að við erum að ræða þetta klukkan að verða hálf fimm að morgni og því er ljóst að við förum ekki í djúpar umræður núna í 1. eða 2. umr. eins og samið hefur verið um framgang málsins. Við munum fara yfir frumvarpið og reyna að tryggja að þessi smíð sé eins vönduð og mögulegt er. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að setjast yfir það og tryggja að þegar kemur að afgreiðslu málsins í 3. umr. 24. júní sé það alveg hafið yfir allan vafa að þessi smíð sé vönduð þannig að allir hlutar málsins falli saman, því að það er vissulega hætt við þegar þessi leið er valin að það geti skapast tilvik þar sem ójafnvægi er á milli hinnar frjálsu greiðsluaðlögunar og hinnar lögþvinguðu greiðsluaðlögunar fyrir dómstólum. Við þurfum með öðrum orðum að fara vandlega yfir þetta allt saman, velta aftur og aftur fyrir okkur ferlinu og gæta að því að tryggt sé að það sé enginn skakkur hvati í kerfinu, það sé ekki þannig að kröfuhafar geti haft hag af því að neyða fólk í þvingaða greiðsluaðlögun frekar en að ná samningum. Ef eitthvað er á það að vera hvati til að leysa málið í hinni samningsbundnu greiðsluaðlögun, frekar en að fara með ferlið fyrir dómstóla. Það var markmið okkar með breytingunni að létta á dómskerfinu, að greiða fyrir frjálsum samningum og það er mjög mikilvægt að við verjum þá höfuðhugsun við þessa útfærslu.

Að síðustu vil ég ítreka þakkir til félags- og tryggingamálanefndar, sérstaklega starfandi formanns nefndarinnar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem hefur borið hitann og þungann af þessu verki. Þetta hefur verið mikil vinna en ég ber líka von í brjósti um að þessi ágæta vinna lýsi okkur líka áfram veginn eins og síðasta árið, að við getum áfram unnið í þverpólitísku samstarfi að meðferð erfiðra skuldamála.