138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:30]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni, hver fjöldinn er sem mun þurfa umtalsverðra skuldbreytinga við. Ég held að það geti alveg verið um 20 þúsund manns sem þurfa með einum eða öðrum hætti skuldbreytingar við. Þeir geta fengið það í bönkum, þeir geta fengið það í þessu ferli og í sjálfu sér ræðst fjöldinn svolítið af því hversu vel við gerum þetta ferli úr garði. Þeim mun betur sem það er gert úr garði þeim mun sterkari vopn gefur það fólki í viðureign við banka og þeim mun meiri líkur eru á að menn ljúki málinu sjálfir við sína banka. Kerfið er hannað þannig að í staðinn fyrir að við höfum kerfi eins og núna er þar sem um þúsund manns hafa farið í gegnum greiðsluaðlögun þá hefur aðaltappinn verið á leiðinni inn í greiðsluaðlögunina vegna þess að menn hafa verið að bíða eftir tímum hjá dómstólunum í marga mánuði. Núna mun það heyra sögunni til og við munum geta ráðið eins marga lögmenn og við viljum í þetta verkefni til að ganga í samningaferlið. Sá vandi að það verði einhver biðröð á því ekki að verða óyfirstíganlegur. Við eigum að geta leyst úr þörfinni mjög hratt þannig að þeir sem þurfa á samningsbundinni greiðsluaðlögun að halda geti fengið tilraun til þessara samninga hratt og örugglega og niðurstöðu í því ferli á fáeinum mánuðum þannig að sem flestir komist í gegnum það ferli á seinni hluta ársins.