138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Sjónarmiðin hafa komið fram, m.a. í máli framsögumanns félagsmálanefndar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, sem er varaformaður félagsmálanefndar og hefur verið starfandi formaður nefndarinnar á undanförnum vikum í fjarveru formanns, hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Nefndin hefur, undir stjórn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, unnið mjög gott starf sem ber að þakka og afurðin liggur fyrir og hefur verið gerð grein fyrir henni. Þetta er hluti af stærri pakka sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson reifaði hér, vísaði til frumvarpa og þingmála sem hafa verið til umfjöllunar, bæði í félagsmálanefnd og í efnahags- og skattanefnd, svo og í allsherjarnefnd þingsins, en þessi frumvörp koma nú til umræðu hvert á fætur öðru.

Það er rétt, sem sagt hefur verið, að hér er tekið á skuldavanda heimila og reynt að búa svo um hnúta að ekki halli á þau gagnvart lánveitandanum, en jafnframt reynt að gæta þess að einkaeignarrétturinn sé virtur.

Ég vil þó taka fram að hér erum við komin inn á mjög grátt svæði, hálar brautir getum við sagt, því að staðreyndin er náttúrlega sú að eignarréttur hins skulduga hefur verið stórlega skertur í þeim hamförum sem leikið hafa íslenskt efnahagslíf og samfélag grátt á undanförnum missirum, vegna forsendubrests, gengishruns, óðaverðbólgu sem hefur skilað sér í gegnum verðtryggingu inn í lán, vegna hárra vaxta og síðan hruns á fasteignamarkaði hefur eignarhlutur skuldugra heimila og fyrirtækja farið mjög rýrnandi. Þetta ber að hafa í huga þegar við erum að tala um einkaeignarréttinn því að iðulega er fyrst og fremst horft á réttindi þess sem veitir lánið en ekki hins sem er viðtakandi þess. Hér þurfum við vissulega einnig að horfa á réttarstöðu hins skulduga. Reynt er að gera það í frumvarpinu. Ákveðnar áhyggjur hafa komið fram um að þetta komi ekki til með að leysa vanda margra sem þurfa á slíkum lausnum að halda, eins og kom fram í ábendingum hv. þm. Lilju Mósesdóttur hér fyrir stundu í andsvari við hæstv. félagsmálaráðherra, og tek ég undir orð hennar.