138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

671. mál
[04:52]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/2009, um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Félags- og tryggingamálanefnd leggur þetta frumvarp fram samhliða frumvörpum um greiðsluaðlögun einstaklinga og um tímabundin úrræði fyrir einstaklinga sem eiga tvær eignir til heimilisnota og frumvarpið byggist á frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra á þingskjali 951.

Frumvarpinu er ætlað að festa í sessi úrræði laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, þannig að ekki verði lengur um tímabundið úrræði að ræða og er m.a. lögð til breyting á heiti laganna í þá veru. Að auki er lagt til að úrræðið verði nefnt greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna til að aðgreina það frá greiðsluaðlögun einstaklinga og eftir atvikum nauðasamningi til greiðsluaðlögunar.

Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við frumvarp nefndarinnar um greiðsluaðlögun einstaklinga. Meðal annars er umboðsmanni skuldara falið virkt hlutverk við mat umsókna um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og skipun umsjónarmanns en þetta hlutverk er samkvæmt gildandi lögum hjá héraðsdómi. Einnig er lagt til að tímabil greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna geti verið mest þrjú ár en samkvæmt gildandi lögum getur það verið allt að fimm ár. Breytingin er til samræmis við greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem kveðið er á um að tímabil greiðsluaðlögunar skuli að jafnaði vera eitt til þrjú ár.

Einnig er lögð til sú breyting að ef veðhafi krefst úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun umsjónarmanns um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna geti skuldari óskað eftir því að umsjónarmaður sé viðstaddur meðferð máls fyrir héraðsdómi. Mikilvægt getur verið fyrir hagsmuni skuldara að hafa umsjónarmann viðstaddan enda er það ákvörðun umsjónarmanns sem krafist er úrlausnar dómstóls um auk þess sem mikill aðstöðumunur getur verið á skuldara og veðhöfum.

Þá er lögð til undanþága frá því skilyrði að einstaklingur sem sækir um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna þurfi að hafa lögheimili á Íslandi. Sé skuldari þannig tímabundið, vegna vinnu, náms eða veikinda, með lögheimili erlendis getur hann sótt um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Loks er frumvarpinu ætlað að tryggja samfellu og skilvirkni í greiðsluaðlögunarmálum ef ekki næst samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga þannig að unnt verði í beinu framhaldi að leita eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og samhliða um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Þar með þurfi ekki að hefja allt ferlið að nýju t.d. vegna gagnaöflunar og kortlagningar á fjárhag skuldara heldur verði hægt að byggja á þeirri miklu vinnu sem umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður hafa þegar innt af hendi.

Í hinu upphaflega frumvarpi ráðherra, sem hann lagði fram um greiðsluaðlögun einstaklinga, voru bæði hinir frjálsu samningar og úrskurður fyrir dómi í sama frumvarpi og ráðherra kom inn á það í ræðu sinni um fyrra frumvarp. Það var einmitt til að tryggja þessa skilvirkni þarna á milli, til að draga úr hvata kröfuhafa til að fara með greiðsluaðlögun fyrir dómstóla og þetta var ansi snúið þegar kom að þessu, af því að mismunandi meðferð er á veðkröfum eftir því hvort um frjálsa eða þvingaða greiðsluaðlögun er að ræða. Í þeirri frjálsu fara þær veðkröfur sem eru umfram 100% veðsetningu inn í samningskröfur, eða verða samningskröfur, og eru meðhöndlaðar með sama hætti, en í greiðsluaðlögun veðkrafna, þegar málin fara fyrir dómstóla, liggja þær sofandi aftan við og kunna að verða afskrifaðar í lok samningstímans ef viðkomandi aðili er enn í erfiðri stöðu, en þá verða þær að samningskröfum.

Í núverandi frumvarpi höfum við sagt að þá geti skuldari aftur farið í greiðsluaðlögun en þetta er náttúrlega eitthvað sem við sættum okkur alls ekki við. Ég hefði viljað setja inn í lögin að hægt væri að beita sömu aðferðum en vilji var fyrir því í nefndinni að óska eftir betra áliti réttarfarsnefndar til að fara yfir það mál og réttarfarsnefnd gat á svo skömmum tíma eða vegna annríkis ekki gert það fyrir okkur. Þar kemur náttúrlega að því að þar eru veðkröfuhafar, þar er ákveðinn eignarréttur, en í raun teljum við líklegra að það verði samningskröfuhafarnir sem muni taka málið fyrir dómstól því að þá munu þeir líta svo á að þeir geti fengið meira upp í kröfur sínar.

Nú er það svo að ef í frumvarpinu eru slíkir hvatar, eða ef við göngum þannig á skjön að kröfuhafar telji sig geta sótt sín mál, þá mun það draga úr skilvirkni úrræðisins. Það er það sem við lítum fyrst og fremst til að þetta, sem er þó nokkuð flókið og langt ferli — en um leið fær sú fjölskylda eða einstaklingur góða aðstoð frá umboðsmanni til þess að fara í gegnum þetta mál, en það mikilvægasta er að þetta sé aðgengilegt fyrir skuldara og að litlar líkur séu á að verið sé að þvæla málinu áfram vegna þess að kröfuhafar telji sig hafa hag af því að fara með málið fyrir dóm eða gangi jafnvel enn lengra og dragi lögmæti laganna í efa, eða lögmæti varðandi stjórnarskrá á lögunum. Ég biðst velvirðingar, frú forseti, á þessum þvælingi í málfari mínu en það er sem sagt þetta atriði sem er grundvallaratriðið í þeirri skoðun sem þarf að fara fram.

Nú efast ég ekki um að full ástæða er til að lesa þessi frumvörp enn eina ferðina yfir þó að við teljum okkur hafa vandað mjög til verksins, en þarna er hið stóra praktíska úrlausnarefni sem ég held reyndar að vel verði hægt að leysa sé viljinn fyrir hendi. Þá þurfum við bara að vera örugg um að við séum réttum megin við strikið.

Frú forseti. Þetta frumvarp er liður í því að skapa skilvirkt og raunhæft úrræði sem sátt ríkir um svo að hægt sé að aðstoða einstaklinga og heimili í skuldavanda og hraða efnahagsbata landsins.